Miklar athugasemdir hafa verið gerðar vegna hæða fyrirhugaðra bygginga í Gufunesi. Þetta kom fram á fundi borgarráðs í gær þar var greint frá því að óskað hafi verið eftir því að tuttugu hæða turn, sem á að reisa í Gufunesi verði lækkaður.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarráði kom fram að ekki hefði verið tekið tillit til þessara athugasemda við deiliskipulagsgerðina fyrir svæðið í Gufunesi. Sögðu fulltrúarnir þessar athugasemdir hafa verið ítrekað lagðar fram bæði af íbúasamtökum Grafarvogs og íbúum.
Bentu Sjálfstæðismenn á að fyrirhuguð hæð turnsins sé enn óbreytt og að háhýsi á þessum stað stingi í stúf við þá byggðaþróun sem fyrir er á svæðinu og skerði útsýni íbúa. Sögðust þeir annars fagna því að uppbygging sé að hefjast í Gufunesi og að kvikmyndaþorpið sé spennandi hugmynd og góð viðbót við þau fjölbreyttu atvinnutækifæri sem eru í Grafarvogi.
Ekki búið að taka ákvörðun um hæð turnsins
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Vinstri grænna sögðu í sinni bókum að skipulag kvikmyndaþorpsins í Gufunesi væri niðurstaða umfangsmikils samstarfs íbúa Grafarvogs, RVK Studios, borgarinnar, Faxaflóahafna og annarra aðila.
Í kjölfar samráðsins var haldin arkitektakeppni þar sem fagleg og þverpólitísk dómnefnd skilaði niðurstöðu. Var það hollenska arkitektastofan Jvantspikjer + Felixx sem vann skipulagskeppnina. Í bókuninni kemur fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hæð byggingarinnar sem um ræðir í bókun minnihlutans og sú bygging ekki til samþykktar í þessu deiliskipulagi sem var til umræðu á fundi borgarráðs í gær.
Telja óvíst að turninn muni skyggja á útsýni
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Vinstri grænna sögðu þessa byggingu það neðarlega í landi og það langt frá næstu byggð í Grafarvogi að ekki sé víst að hún muni skyggja á útsýni svo nokkru nemi. Þá sögðu þeir kvikmyndaþorpið í Gufunesi nú þegar orðið eitt stærsta atvinnusvæðið í austurhluta borgarinnar, sannkallað þorp skapandi greina eða fríríki frumkvöðlanna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu mikilvægt að halda því til haga að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í dómnefnd um skipulag í Gufunesi hefði gert athugasemdir við turninn. Þá hafi ítrekað komið athugasemdir og ábendingar frá íbúum í Grafarvogi um að turninn sé ekki í samræmi við þá byggðaþróun sem fyrir er og stingur í stúf við umhverfið auk þess að skerða útsýni.
Heimild: Visir.is