Home Fréttir Í fréttum Stefna á að taka Vaðlaheiðargöng í notkun í byrjun desember

Stefna á að taka Vaðlaheiðargöng í notkun í byrjun desember

208
0
Upphaflega átti að opna Vaðlaheiðargöng árið 2016. Mynd: Vísir/Auðunn

Vaðlaheiðargöng verða tekin í notkun 1. desember gangi allt að óskum. Verktakinn sem hefur unnið að greftri ganganna og félagið Vaðlaheiðargöng hf. staðfestu í dag samkomulag um verklokadag og gerðu samkomulag um uppgjör og greiðslu bóta til verktakans. Stjórnarformaður Vaðlaheiðaganga segir að kostnaður við göngin verði innan ramma lánsheimildar ríkisins.

<>

Ósafl sf. afhendir göngin tilbúin til umferðar föstudaginn 30. nóvember, að því er segir í sameiginlegri tilkynningu Vaðlaheiðarganga hf. og Ósafls sf. Þá er miðað við að göngin verði tekin í notkun 1. desember.

Samhliða samkomulaginu um verklokadag gerðu félögin samkomulag um uppgjör og greiðslu bóta til Ósafls á grundvelli úrskurðar sáttanefndar. Bæturnar eru tilkomnar vegna áhrifa umfangsmeiri jarðhita á gangnaleiðinni en búist var við. Þær nema 1.740 milljónum króna á núverandi verðlagi.

Vaðlaheiðargöng hf. hafa áskilið sér rétt til þess að fá úrskurð um bótafjárhæðina fyrir dómstólum.

Upphaflega voru verklok áætluð árið 2016. Verkið hefur hins vegar dregist á langinn, ekki síst eftir að stór heitavatnsæð opnaðist í þeim árið 2014. Alþingi samþykkti upphaflega ríkislán fyrir framkvæmdina upp á 8,7 milljarða króna árið 2012. Lánið var síðar hækkað í 14,4 milljarða í fyrra.

Hilmir Gunnlaugsson, stjórnarformaður Vaðlaheiðarganga hf., segir að kostnaður og það sem eftir standi ef verksamningi muni rúmast innan lánsheimildarinnar frá ríkinu.

Heimild: Visir.is