Home Fréttir Í fréttum Reyna að lágmarka áhrif af byggingaframkvæmdum

Reyna að lágmarka áhrif af byggingaframkvæmdum

238
0
Mynd: Eggert Þór Jónsson/RÚV
Framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítalans segir að allt kapp sé lagt á að lágmarka hávaða vegna byggingaframkvæmda við Landspítalann á Hringbraut. Jarðvegsframkvæmdir eru hafnar vegna nýs meðferðarkjarna spítalans.

Aðstandendur sjúklinga og starfsfólk Landspítala hefur margt áhyggjur af raski og hávaða sem kemur til með að fylgja framkvæmdum við nýjan Landspítala við Hringbraut.

<>

„Framkvæmdir við Nýjan Landspítala eru á vegum sérstaks fyrirtækis, en ég veit að það fyrirtæki gerir allt sem það getur til að minnka áhrif frá hávaða, hafa sérstakar hávaðavarnir, rykvarnir, vörubílar verða þvegnir áður en þeir fara út á götur borgarinnar þannig að það það er allt gert til þess að minnka áhrifin af þeim framkvæmdum,“ segir Ingólfur Þórisson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landspítalans.

Óhjákvæmilega fylgi framkvæmdunum þó nokkuð ónæði. „Þegar nýi meðferðarkjarninn verður byggður þá eru það fyrst og fremst sprengingar, sem verða þá á fyrir fram ákveðnum tímum, og haldið í lágmarki, varðandi hávaða.“

Hann segist hafa orðið var við áhyggjur starfsmanna af þessum framkvæmdum. „Já vissulega. Bæði aðstandenda, sjúklinga og starfsmanna, en við gerum allt sem við getum til þess að minnka þessi áhrif, alveg eins og mögulegt er,“ segir Ingólfur, sem deilir þessum áhyggjum.

Nauðsynleg viðhaldsvinna á húsi krabbameinsdeildar

Aðstandandi dauðvona sjúklings vakti athygli á hávaða vegna viðhaldsframkvæmda á húsi krabbameinsdeildar í gær. Hann segir með ólíkindum að fárveikum sjúklingum og starfsfólki sé boðið upp á þessar aðstæður.

Framkvæmdirnar standi yfir frá morgni til kvölds. „Hér er verið að vinna nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir, við erum að skipta um gler í gluggum.“ Ingólfur segir ánægjulegt að fjármagn hafi fengist til að fara í þessar framkvæmdir.

„En við höfum fullan skilning á því að þetta getur skapað ónæði og færum til deildir, eins og við mögulega getum, lokum sjúkrastofum þegar verið er að vinna í viðkomandi gluggum, þannig að við gerum allt sem við getum til að minnka áhrifin af þessu.“

Hefði ekki verið hægt að tæma þessa álmu rétt á meðan á framkvæmdum stæði? „Við búum nú ekki svo vel að hafa annan spítala sem við getum flutt okkur í,“ segir Ingólfur. „En við höfum notað sumarið, þegar sumarlokanir eru, og flutt þá deildir og unnið í deildum sem eru þá lokaðar.“

Heimild: Ruv.is