Home Fréttir Í fréttum Vel gengur að reisa nýtt netaverkstæði á Neskaupstað

Vel gengur að reisa nýtt netaverkstæði á Neskaupstað

297
0
Neskaupstaður. Mynd: Austurfrétt.is

Framkvæmdir ganga vel við nýtt netaverkstæði Fjarðanets í Neskaupstað sem rís á nýrri landfyllingu austan loðnubræðslu Síldarvinnslunnar. Stefnt er að því að loka húsinu fyrir veturinn og taka það í notkun næsta vor.

<>

„Þetta hefur gengið vel,“ segir Jón Einar Marteinsson, framkvæmdastjóri Fjarðanets. Að undanförnu hefur verið steyptur upp grunnur. Næst er von á stálvirki og klæðningum þannig hægt sé að loka húsinu. Í vetur verður svo unnið innanhúss.

Fyrsta skóflustunga að húsinu var tekin í byrjun maí og gert er ráð fyrir að það verði tilbúið í mars á næsta ári.

Það mun leysa af hólmi núverandi verkstæði Fjarðanets sem byggt var á árunum 1964 og 5.

Nýja húsið verður 85 metra langt og 26 metra breitt. Heildarflötur þess verður alls 2700 fermetrar og mun það hýsa bæði netaverkstæði Fjarðanets og gúmmíbátaþjónustu.

Hvert hólf er um 200 rúmmetrar að stærð. „Nætur og veiðarfæri hafa stækkað mikið á síðustu árum og mikilvægt að nótahólfin séu stór,“ segir Jón Einar.

„Tilkoma nýja verkstæðisins mun þýða algjöra byltingu í starfsemi Fjarðanets og þjónustumöguleikum fyrirtækisins og Hampiðjunnar á Austurlandi. Verkstæðið þýðir einnig breytta og mun betri vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn.

Skip og veiðarfæri hafi stækkað mikið á síðustu árum og við því þarf að bregðast með stærra húsnæði og öflugari þjónustu.

Gamla húsið þótti stórt á sínum tíma en það er orðið of lítið miðað við kröfur dagsins í dag. Núna verður öll vinnan á einu gólfi í stað þess að í gamla verkstæðinu fer hún fram á þremur hæðum.

Ein stór breyting verður sú að við munum geta geymt allar nætur og önnur veiðarfæri innanhúss í stað þess að nú eru næturnar geymdar úti.

Þegar nýbyggingin verður tekin í notkun þá getum við boðið viðskiptavinum okkar upp á bestu fáanlegu þjónustu.“

Heimild: Austurfrett.is