Home Fréttir Í fréttum Fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU

Fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU

245
0

Fyrsta skóflustungan að nýrri gas- og jarðgerðarstöð SORPU var tekin 16 ágúst í Álfsnesi. Verkefnið markar tímamót og er bygging gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi stærsta verkefni SORPU frá því fyrirtækið hóf starfsemi árið 1991. Með tilkomu stöðvarinnar verður gjörbylting í meðhöndlun heimilisúrgangs á höfuðborgarsvæðinu og urðun lífræns úrgangs verður liðin tíð.

<>

Á myndinni má sjá Líf Magneudóttur, Jónu Sæmundsdóttur, Helgu Ingólfsdóttur, Guðmund Inga Guðbrandsson umhverfisráðherra, Harald Sverrisson, Bjarna Torfa Álfþórsson og Ármann Kr. Ólafsson taka fyrstu skóflustunguna.

Yfir 95% endurnýting heimilisúrgangs

Áætlað er að stöðin verði komin í fullan rekstur fyrri hluta árs 2020 og mun hún anna allt að 35.000 tonnum af lífrænum heimilisúrgangi. Markmiðið með gas- og jarðgerðarstöðinni er að nýta sem best allan lífrænan úrgang sem til fellur á heimilum á höfuðborgarsvæðinu, s.s. matarleifar, gæludýraúrgang o.fl. Ekki aðeins nýtast næringarefnin sem felast í lífrænum heimilisúrgangi, heldur einnig orkan sem verður til við niðurbrot úrgangsins. Ársframleiðsla stöðvarinnar verður annars vegar um 3 milljónir Nm3 af metangasi, sem hægt er að nýta sem eldsneyti á ökutæki, og hins vegar 10-12.000 tonn af jarðvegsbæti, sem hentar vel til landgræðslu.

Gas- og jarðgerðarstöð er loftslagsmál

Gas- og jarðgerðarstöðin er mikilvægt skref í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda vegna meðhöndlunar úrgangs. Nýting metans í stað jarðefnaeldsneytis á ökutæki hefur í för með sér verulegan ávinning fyrir umhverfið. Metan sem nú er unnið á urðunarstað SORPU er eina umhverfisvottaða eldsneytið á Íslandi, en það ber norræna umhverfismerkið Svaninn. Ætlað er að metanframleiðsla SORPU muni tvöfaldast með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar og getur metanið þá komið í staðinn fyrir um fimm milljónir bensínlítra árlega. Þá verða þúsundir tonna af jarðvegsbæti úr lífrænum heimilisúrgangi öflugur liðsauki í landgræðslu og skógrækt og þar með bindingu kolefnis í gróðri.
Breytt vinnsla heimilisúrgangs mun hafa margvísleg jákvæð áhrif á bæði umhverfi og samfélag. Fyrsta skóflustungan að gas- og jarðgerðarstöð er stórt skref í átt að grænni og sjálfbærari framtíð.
Heimild: Sorpa.is