Upphaflega átti að eyða 400 milljónum í endurbætur á Fríkirkjuvegi 11, en sá kostnaður er nú kominn í 1,7 milljarð.
Framkvæmdum við Fríkirkjuveg 11 mun að líkindum ljúka í haust og þá er ráðgert að opna húsið almenningi. Ekki liggur þó enn fyllilega fyrir með hvaða hætti að sögn Ragnhildar Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Novator. „Þetta er alveg á lokametrunum. Núna eru vangaveltur um nýtingu,“ segir hún.
Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, keypti húsið af Reykjavíkurborg á vormánuðum árið 2008 fyrir 650 milljónir króna.
Þegar framkvæmdir hófust var gefið út að búist væri við að kostnaður við endurbætur á húsinu myndi nema 400 milljónum króna. Samkvæmt ársreikningi Novator F11 fyrir árið 2017 var kostnaðurinn kominn í 1,7 milljarða um síðustu áramót.
Með kaupverðinu er kostnaður Novator við Fríkirkjuveg því kominn í 2,35 milljarða króna og þar sem framkvæmdir standa enn yfir á hann vafalaust eftir að aukast eitthvað.
„Þetta var ekki ókeypis,“ segir Ragnhildur. „Það var lögð mikil áhersla á að vanda mjög til verka þarna. Það eru nokkur handtök eftir. Húsið er búið að vera þrjú ár í endurgerð þannig að það liggur ekkert á að stökkva til á nokkrum vikum að skipuleggja framhaldið,” segir Ragnhildur.
Heimild: Vb.is