Home Fréttir Í fréttum Asbest í kreppuhöllinni

Asbest í kreppuhöllinni

494
0
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Komið hefur í ljós að asbest er að finna í plötum á milli glugga í húsi við Urðarhvarf sem aldrei hefur verið tekið í notkun og hefur fengið nafnið Kreppuhöllin. Bannað er að nota asbest í húsum hér. Talið er að sá sem flutti inn gluggana hafi ekki vitað að asbest væri í plötunum.

Byggingin sem um ræðir er 16 þúsund fermetra skrifstofubygging sem var reist fyrir hrun en hefur aldrei verið fullkláruð. ÞG verktakar byggðu húsið upphaflega en Íslandsbanki leysti það svo til sín 2011.

<>

Fyrirtækið Heilsuborgir skrifaði undir samningu umkaup á húsinu fyrir þremur árum til að byggja þar heilsugæslustöð.

Ekkert varð úr því og reyndar var aldrei gefið út afsal vegna hússins. Fyrir um mánuði keyptu ÞG verktakar svo húsið til baka.

Eftir þessi kaup var verkfræðistofa látin gera athugun á húsinu. Þá kom í ljós að plötur á milli glugga reyndust innihalda asbest.

Bannað hefur verið að nota það efni í húsum í áratugi þar sem það er heilsuspillandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirlitinu voru gluggarnir keyptir af BYKO, sem hafði flutt þá inn frá Kína.

Ekkert í innihaldslýsingu glugganna benti til þess að asbest væri í þessum plötum og því þykir ljóst að BYKO hafi ekki haft vitneskju um það.

Rífa þarf asbestið niður eftir ákveðnum leiðum og undir leiðsögn Vinnueftirlitsins. BYKO hefur boðist til að kosta niðurrifið á asbestinu. Gluggarnir voru sérstaklega fluttir inn fyrir þessa framkvæmd og því er ekki talið að sams konar glugga sé að finna í öðrum byggingum.

Hvorki BYKO né ÞG verktakar vildu tjá sig um málið þegar fréttastofa leitaði eftir því.

Heimild: Ruv.is