Home Fréttir Í fréttum Vaðlaheiðargöng ekki tilbúin á þessu ári

Vaðlaheiðargöng ekki tilbúin á þessu ári

214
0
Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Vaðlaheiðargöng verða ekki tilbúin á þessu ári. Í drögum að nýrri verkáætlun er gert ráð fyrir opnun þeirra 15. janúar. Stjórnarformaður Ósafls gagnrýnir framkvæmdastjóra Vaðlaheiðarganga fyrir að birta í fjölmiðlum gögn sem lögð eru fyrir á verkfundi áður en þau eru rædd.

Fréttablaðið greindi fyrst frá því í vikunni að í nýjum drögum að verkáætlun, sem verktakinn í Vaðlaheiðargöngum hafi skilað, sé gert ráð fyrir því að gögnin verði opnuð fimmtánda janúar, en ekki á þessu ári eins og stefnt hefur verið að.

<>

Ósammála um ástæður seinkunar

„Það er dagsetning sem er verið að vinna með í augnablikinu,” segir Sigurður R. Ragnarsson, stjórnarformaður Ósafls, verktakans við göngin.

Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. segir verkkaupann ekki sáttan við slíkar tafir. Ekki hafi fengist skýringar á þessarri seinkun og ekkert sérstakt hafi komið upp á eftir að eignlegum gangagreftri lauk.

Þessu vísar Sigurður á bug, heilmiklar viðbætur hafi verið gerðar sem hafi tafið fyrir. „Heilmiklar og honum er kunnugt um þær allar. Og þær eru allar staðfastlega bókaðar í fundargerð.”

Ósáttur við að skjöl af verkfundi rati í fjölmiðla

Og Sigurður er ósáttur við að umrædd verkáætlun skuli rata í fjölmiðla áður en tekist hafi að ræða hana við verkkaupann.

„Það er mjög óvenjulegt að skjöl sem eru lögð fram á verkfundi og eru til umræðu, að þau séu dregin fram í dagsljósið í fjölmiðlum áður en þau eru rædd yfir höfuð á milli aðila eftir þeim ferlum sem venja er um.

Þannig að okkur kom mjög á óvart að þetta skyldi vera komið í fjölmiðla án þess að við hefðum fengið nein viðbrögð frá verkkaupanum á þessa áætlun yfir höfuð.”

Valgeir Bergmann segist ekki telja að hann hafi brotið neinar hefðir eða reglur við að upplýsa um stöðuna í verkinu og áætlaðan skilatíma.

Heimild: Ruv.is