Home Fréttir Í fréttum Í kappi við tímann að ljúka Búrfellsvikjun

Í kappi við tímann að ljúka Búrfellsvikjun

139
0
Mynd: Landsvirkjun
Stækkun Búrfellsvirkjunar er að ljúka og nú er unnið í kappi við tímann til að ná að virkja framhjárennsli yfir sumarið. Virkjunin er neðanjarðar og verður vígð eftir tvær vikur.

Búrfellsvirkjun var tekin í notkun 1970 en um einum og hálfum kílómetra austar hafa, síðan í apríl 2016, staðið framkvæmdir við stækkun. Þær þurftu ekki í umhverfismat því Skipulagsstofnun mat það svo að þeim fylgdi lítið rask og lítið bæri á mannvirkjum.

<>

Framkvæmdum við spennistöðina, milli Búrfells og Sámsstaðamúla, er að ljúka. Vatni var hleypt á virkjunina í síðustu viku, til að prófa vélarnar, en hún samnýtir með þeirri gömlu bæði mannvirki og Bjarnalón.

Vatni er hleypt inn í stöðina í gegnum inntak og þaðan fer það niður um eitt hundrað metra löng fallgöng. Það knýr svo vélina sem framleiðir rafmagn sem fer upp í spennistöðina á yfirborðinu, en vatnið heldur svo áfram sína leið.

Við hlið frárennslisins er inngangur að stöðvarhúshvelfingunni en um 150 manns vinna nú við að ljúka verkinu. Ásbjörg Kristinsdóttir, yfirverkefnisstjóri stækkunar Búrfellsvirkjunar, segir að framkvæmdir hafi gengið mjög vel.

„Við stefnum að því að gangsetja í lok mánaðarins. Stöðin er núna með uppsettri einni vél, einni hundrað megavatta vél en við höfum hannað hana þannig að við getum bætt við annarri vél síðar meir ef þörf krefur,“ segir Ásbjörg.

Kostnaður við verkefnið er um sautján milljarðar króna, og allt á áætlun, að sögn Ásbjargar. Hún segir verkið mjög umfangsmikið enda lítið þorp risið undir starfsmenn en stefnt er að því að vígja virkjunina 28. júní. Það er óvenjulegt að það sé gert snemmsumars en þessari virkjun er ætlað að nýta um fjórtán prósent þeirrar orku sem fer að jafnaði fram hjá Búrfellsstöð á hverju ári, og tíminn er naumur, því það er óvenju mikið vatn í lóninu og rennur nú þegar fram hjá. „Við viljum gjarnan að stöðin geti nýtt þetta framhjárennsli sem vanalega rennur hérna fram hjá þessu svæði þannig að þess vegna erum við að gangsetja hana núna í upphafi sumars vegna þess að það er svo mikið vatn í Þjórsá um þetta svæði yfir sumartímann.“

Heimild: Ruv.is