Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri í fullum gangi

Framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri í fullum gangi

177
0
Mynd: Kaffið.is

Framkvæmdir við Listasafnið á Akureyri eru í fullum gangi og unnið hörðum höndum að því að klára allt fyrir opnun safnsins í lok sumars. Formleg vígsla og opnun stórbættra og aukinna salarkynna Listasafnsins á Akureyri fer fram á Akureyrarvöku 24.-25. ágúst en þá sömu helgi verður 25 ára afmæli safnsins fagnað. Fjórum dögum síðar fagnar Akureyrarkaupstaður einnig 156 ára afmæli.

<>

Gífurlegar endurbætur
Safnið er farið að taka á sig mynd og framkvæmdir komnar langt á leið. Upphaflega var stefnt að því að opna safnið núna um miðjan júní eða á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní, en fyrir nokkru varð ljóst að þær væntingar gætu ekki staðist. Á safninu verða 12 sýningarrými og því mikil aukning í framboði listasýninga í fjölbreyttum rýmum, þ.á.m. verður einn salur úti á þriðju hæð safnsins með frábæru útsýni yfir Listagilið og Akureyrarkirkju. Með nýjum aðalinngangi batnar aðstaða fyrir safnkennslu til muna og sögusýning um fjölbreytt atvinnu- og listalífi í Gilinu í áranna rás verður það fyrsta sem gestir sjá.

 

Aðstæður fyrir hreyfihamlaða til fyrirmyndar
Eftir endurbætur og stækkun verða byggingarnar tvær sem Listasafnið hefur til umráða, annars vegar gamla Mjólkursamlag KEA og hins vegar Ketilhúsið, nú sameinaðar með tengibyggingu svo hægt sé að ganga auðveldlega á milli. Nýr aðalinngangur á safnið verður tekinn í notkun þar sem gengið verður inn hjá nýja kaffihúsinu og safnbúðinni en mögulega verður einnig hægt að ganga inn á safnið á sérstökum dögum beint frá Gilsbakkaveginum. Glæný lyfta verður tekin í notkun svo að hreyfihamlaðir og fólk með barnavagna geti komist auðveldlega um allt safnið en eitt af lykiláherslum arkitekta var að bæta aðgengi.

Hljóðeinangrun til að koma í veg fyrir bergmál
Hlynur Hallsson, safnstjóri Listasafnsins, segir bergmál algengan kvilla á söfnum víðsvegar um heiminn. Þegar rýmin eru stór, líkt og anddyri Listasafnsins verður, þá sé bergmál oftar en ekki fylgifiskur. Úr þessu er verið að bæta með því að hljóðeinangra anddyrið með nýjustu tækni svo vonandi verði hægt að nýta rýmið einnig í samkomur eða tónleika við sérstök tilefni.

Mikill spenningur fyrir opnuninni í listasamfélaginu
Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins á Akureyri bindur vonir við að stækkun Listasafnsins verði ferðaþjónustu á Akureyri mikil lyftistöng og bæjarbúum ánægjuefni en hann segist finna mikinn spenning fyrir safninu, bæði fyrir norðan og sunnan.
„Það er rosa mikill spenningur fyrir safninu. Listagilið er líka bara þekkt vörumerki og fólki finnst gaman að það sé loksins svona stórt listasafn fyrir utan höfuðborgarsvæðið. Það er svo mikilvægt að það séu listamenn sem búa hérna, myndlistaskóli, margar vinnustofur, sjálfstætt starfandi sýningarrými eins og Mjólkurbúðin og Kaktus t.d., kaffihús, veitingastaðirnir… allt kemur þetta saman í Listagilinu í spennandi heild sem ég held að við getum gert miklu meira úr og grundvöllurinn að því er náttúrlega Listasafnið,“ segir Hlynur.

Listamenn geta „leigt“ hjá Listasafninu
Starfsemi í byggingunni verður áfram fjölbreytt: Mjólkurbúðin verður á sínum stað sem og vinnustofur listamanna, listamannarekin sýningarými og gestavinnustofur. Þá stendur listamönnum til boða að koma og „leigja“ hjá Listasafninu með því að dvelja mánuð í senn í gistirýmum innan safnsins og nýta sér vinnustofur listamanna. Aðstaðan verður einnig notuð fyrir listamenn sem fengnir eru til að vera með sýningar fyrir safnið sem sparar safninu ákveðinn kostnað við að kaupa gistingu annarsstaðar frá.

Svona kemur Listasafnið til með að líta út að framkvæmdum loknum.

Listamenn fá greitt frá safninu
Í fjárhagsáætlun Akureyrar fyrir árið 2018 er gert ráð fyrir 1,5 milljón króna viðbótarfjárveitingu vegna verkefnisins „Greiðum listamönnum“. Listasafnið á Akureyri er annað safnið á eftir Listasafni Reykjavíkur til að gera verklagsreglur tengdar átakinu en markmið þeirra er að tryggja að listamenn fái sanngjarnar greiðslur fyrir þátttöku í sýningum og það vinnuframlag sem innt er af hendi í tengslum við sýningar á verkum þeirra. Byrjað verður að greiða samkvæmt verklagsreglunum við formlega opnun safnsins.

Sjö sýningar opnaðar samdægurs
Við opnunina í ágúst verða opnaðar hvorki meira né minna en sex sýningar samdægurs til viðbótar við þær sýningar sem þegar eru í sýningu núna. Sýningarnar eru eftirfarandi: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Hugleiðing um orku; Sigurður Árni Sigurðsson, Hreyfðir fletir; Aníta Hirlekar, Bleikur og grænnSvipir – valin verk úr safneign Listasafns ASÍ, Hjördís Frímann og Magnús Helgason; HugmyndirÚrval – valin verk úr safneign Listasafnsins á Akureyri og yfirlitssýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils.

Ketilhúsið notað í auknum mæli fyrir viðburði
Ketilhúsið hefur í gegnum árin verið vinsæll staður fyrir hina ýmsu viðburði, hvort sem það eru afmæli, brúðkaup, tónleikar, móttökur, fyrirlestrar o.fl. Undanfarin ár hefur útleiga á salnum þó verið lítil sem engin þar sem Listasafnið hefur þurft að nýta sér salinn mikið undir sýningar. Nú kemur það til með að breytast við vígslu nýja safnsins þegar allir 12 sýningarsalirnir verða teknir í notkun og hægt verður að skipuleggja sýningarnar þannig að í auknum mæli verði Ketilhúsið notað fyrir viðburði, móttökur, ráðstefnur og veislur. Listasafnið mun þannig laða að sér bæjarbúa og gesti í auknum mæli og af fjölbreyttari tilefni en fram til þessa.

Frá undirskrift á samningi um rekstur í kaffihúsinu

Kaffihúsið opið frá morgni til kvölds
Það eru hjónin Marta Rún Þórðardóttir og Ágúst Már Sigurðsson sem koma til með að opna og reka kaffihúsið Gil í Listasafninu. Marta og Ágúst hafa framúrskarandi sérþekkingu á kaffi góða reynslu af rekstri kaffihúsa en einnig munu þau bjóða upp á léttar veitingar og léttvín. „Við ætlum okkur að mynda notalega stemningu á kaffihúsinu og leggja áherslu á hollar veitingar með fyrsta flokks hráefni. Við stefnum á að opna kl. 8 á morgnana með léttum morgunverði og ætlum okkur jafnframt að nýta útisvalir Listasafnsins undir veitingaaðstöðu og uppákomur þegar aðstæður leyfa. Við hlökkum mikið til að taka þátt í fjölbreyttu menningarstarfi Listagilsins og teljum möguleikana mikla,“ segir Marta Rún, eigandi Gils.

Heimild: Kaffið.is