dag voru opnuð tilboð hjá Ríkiskaupum vegna framkvæmda við nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut. Þetta kemur fram í tilkynningu. Um er að ræða framkvæmdir við jarðvinnu fyrir meðferðarkjarnann, götur, göngustíga, bílastæði og annan lóðafrágang, ásamt fyrirhuguðum bílakjallara. Bygging nýs meðferðarkjarna er hluti af heildaruppbyggingu Hringbrautarverkefnisins.
Aðrar byggingar eru nýtt sjúkrahótel, sem þegar er risið og verður tekið í notkun innan skamms, rannsóknahús og bílastæða-, tækni- og skrifstofuhús.
Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri NLSH: „Opnun tilboða hér í dag í jarðvinnu vegna nýs þjóðarsjúkrahúss er stór áfangi fyrir alla landsmenn og ekki síst fyrir sjúklinga.
Nýr meðferðarkjarni mun hafa mikil jákvæð áhrif á heilbrigðisþjónustuna og verða meginstoðin í nýju spítalaþorpi sem mun rísa við Hringbraut.
Áætlanir okkar eru þær að byggingu spítalans verður lokið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun 2019-2023.
Unnið er að hönnun meðferðarkjarnans en hún er í höndum Corpus-hópsins, en Spital-hópurinn sér um gatna-, veitna- og lóðahönnun.“
Kostnaðaráætlun verkkaupa er 3,4 milljarðar króna og voru þrjú fyrirtæki sem lögðu inn tilboð í verkið undir kosnaðaráætlun.
Eftirtaldir aðilar lögðu inn tilboð í verkið:
1. Ístak hf. kr. 3.042.033.141 (89,2% af kostnaðaráætlun)
2. Loftorka Reykjavík hf. og Suðurverk. kr 3.797.159.718 (111,4% af kostnaðaráætlun)
3. Íslenskir aðalverktakar hf. kr. 2.843.198.009 (83,4% af kostnaðaráætlun)
4. Munck Íslandi kr. 3.147.917.406 (92,3% af kostnaðaráætlun)
Heimild: Vb.is