Fyrsti hluti nýs miðbæjar suður af Smáralind er að taka á sig mynd. Framkvæmdir við 210 íbúðir eru hafnar og er stefnt að því að hefja sölu á fyrstu byggingunni í ágúst. Áformað er að afhenda fyrstu íbúðirnar síðla árs. Þá er hönnun 270 íbúða langt komin og hefst smíði þeirra síðar á árinu.
Fasteignaþróunarfélagið Klasi stýrir verkefninu fyrir hönd 201 Smára. Þrjár arkitektastofur, Arkís, T.ark og Tendra, hanna byggingar.
Ingvi Jónasson, framkvæmdastjóri Klasa, segir nýja bæjarhlutann, 201 Smára, hannaðan frá grunni inn í gróið hverfi. Um 84 þúsund fermetrar af íbúðum og atvinnuhúsnæði muni rísa í 201 Smára.
Margvísleg þjónusta er í boði á svæðinu. Ásamt Smáralind eru þjónustukjarnar á Smáratorgi og í Smárahverfi og Lindunum steinsnar frá. Þá er stutt í íþróttasvæði Breiðabliks og skóla.
Rúmar á annað þúsund íbúa
Alls verða 675 íbúðir í hverfinu, sem gæti fullbyggt rúmað á annað þúsund íbúa. Við Smáralind verður byggt nýtt miðbæjartorg, Sunnutorg, sem verður eitt af einkennum Kópavogs. Það verður til dæmis stærra en Ingólfstorg í Reykjavík.
Hluti fyrstu íbúðanna sem fara í sölu í ágúst verður í nýju fjölbýlishúsi, Sunnusmára 24-28, en þar verða 57 íbúðir, 57-120 fermetrar en stærri íbúðir á efstu hæð. Bílastæði í kjallara fylgja.
Ingvi segir Klasa leggja áherslu á góða blöndun íbúða í hverfinu. Þar verða allt frá 50 fermetra íbúðum upp í fimm herbergja íbúðir. Hann segir íbúðirnar hannaðar með hagkvæmni og sveigjanleika í huga. M.a. verði auðvelt að bæta við herbergjum, og síðar fjarlægja þau, eftir þörfum hvers tíma í hluta íbúða. Þá sé grunnflötur íbúða nýttur vel.
Heimild: Mbl.is