Home Fréttir Í fréttum Féll 3 metra af svölum við vinnu og fær 2 milljónir í...

Féll 3 metra af svölum við vinnu og fær 2 milljónir í bætur

190
0
Mynd: Rúv - rúv.is
Hæstiréttur dæmdi í dag hálffimmtugum karlmanni, sem slasaðist við fall niður af svölum fyrir áratug, tvær milljónir króna í bætur frá Vátryggingafélagi Íslands (VÍS). Hæstiréttur snýr þar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafði sýknað félagið. VÍS er tryggingafélag þáverandi vinnuveitanda mannsins, trésmiðju í Reykjavík, sem dómnum þykir ekki hafa gætt nægilega að öryggi starfsmanns síns. Maðurinn krafðist fjögurra milljóna í bætur en er dæmdur til að bera helming þess tjóns sjálfur.

Maðurinn féll aftur fyrir sig niður af svölum nýbyggingar í Innri-Njarðvík í nóvember 2008 þegar hann var að sækja þangað byggingarefni. Fallið var rétt rúmir þrír metrar. Hann hlaut opið beinbrot á vinstri handlegg og brot á lífbeinsarmi. Hann gekkst samdægurs undir aðgerð þar sem framhandleggsbrotin voru fest með spöngum og skrúfum. Hann var með öllu óvinnufær í fimm mánuði á eftir og er metinn með 10% varanlega örorku.

<>

Hættulegar aðstæður og ógætilegar aðfarir

Niðurstaða dómsins er að aðbúnaður á vettvangi hafi verið ófullnægjandi og að vinnuveitandinn beri ábyrgð á því. Til dæmis hafi engar fallvarnir – til dæmis handrið – verið á svölunum. Hins vegar er það einnig niðurstaða dómsins að maðurinn hafi farið mjög ógætilega að – hann hafi verið meðvitaður um að fallvarnir skorti og gert athugasemdir við slysahættuna en engu að síður stigið út af svölunum til að reyna að komast niður á vinnupall þar til hliðar. Af þessum sökum er hann látinn bera helming tjónsins sjálfur.

Niðurstaða dómsins um gáleysi mannsins byggir á vitnisburði pípulagningamanns sem horfði á slysið úr 15 metra fjarlægð. Sjálfur sagðist maðurinn ekki hafa farið að eins og pípulagningamaðurinn lýsti, en sagðist ekki hafa getað komið því til skila til lögreglu á vettvangi vegna tungumálaörðugleika. Á hinn bóginn fékk lýsing hans á atburðinum litla sem enga stoð í gögnum málsins. Því byggir meirihluti dómsins alfarið á vitnisburði pípulagningamannsins.

Ólafur Börkur skilar sératkvæði

Einn þriggja hæstaréttardómara, Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilar sératkvæði og vill að VÍS beri tvo þriðju hluta tjónsins en maðurinn aðeins einn þriðja, enda hafi Vinnueftirlitið komist að þeirri eindregnu niðurstöðu að orsök slyssins mætti rekja til þess að engar fallvarnir voru til staðar. Vinnueftirlitið hafi gefið þau fyrirmæli í framhaldinu að leggja bæri blátt bann við allri vinnu og umferð á veggsvölunum þar sem handrið vantaði, ef frá væri talin vinna við uppsetningu handriða.

Heimild: Ruv.is