Bæjarráð Fljótsdalshéraðs, en þar er Egilsstaðaflugvöllur, samþykkti í dag að lýsa yfir stuðningi við lagafrumvarp þess efnis að skipulagsvald Reykjavíkurflugvallar verði í höndum ríkisvaldsins, líkt og gildir um Keflavíkurflugvöll.
„Bæjarráð telur að mikilvægt sé að skipulagsvald sveitarfélaga sé almennt virt. Þó telur bæjarráð að uppi séu og geti verið aðstæður sem réttlæta inngrip stjórnvalda landsins alls í ákveðnar skipulagsáætlanir. Um slíkt eru þó nokkur dæmi,“ segir í samþykkt bæjarráðs.
„Í ljósi mikilvægis Reykjavíkurflugvallar fyrir landið allt telur bæjarráð að eðlilegt sé að ríkisvaldið hlutist sérstaklega til um skipulag flugvallarins og styður því frumvarpið.
Bæjarráð bendir þó jafnframt á að eðlilegt getur talist að sett sé sérstök löggjöf um alþjóðaflugvelli á landinu þar sem meðal annars er tekið á skipulagsmálum þeirra valla með hagsmuni landsins alls að leiðarljósi,“ segir bæjarráð Fljótsdalshéraðs.
Heimild: Vísir.is