Home Fréttir Í fréttum Stóriðjan nauðsynleg til að skapa atvinnu: „Þetta er einfaldlega rangt og stenst...

Stóriðjan nauðsynleg til að skapa atvinnu: „Þetta er einfaldlega rangt og stenst enga skoðun“

74
0
Mynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Hópur íbúa í Reykjanesbæ sem heldur úti Facebook-síðunni Helguvík: Vilt þú njóta vafans? segir þau rök að stóriðjan sé nauðsynleg til að skapa atvinnu sé einfaldlega röng og standist enga skoðun.

<>

„Eftir hrun var 15 til 17% atvinnuleysi á Suðurnesjum en er núna komið niður í 5% þrátt fyrir að álver eða önnur stóriðja hafi EKKI farið í gang. Þessi rök halda því ekki,“ segir í pistli sem birtist á síðunni í dag.

Leita út fyrir svæðið að starfskrafti

Þá bendir hópurinn á nýlegt viðtal Víkurfrétta við Írisi Guðmundsdóttur, forstöðumanns Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum, sem sagði flugþjónustuna á Keflavíkurflugvelli hafa þurft að leita út fyrir svæðið eftir starfsfólki.

„Það er alveg klárt mál að atvinnuleysi verður ekki útrýmt með verksmiðjum. Menn gætu byggt verksmiðjur út um allt en alltaf væri til staðar það sem kallast viðvarandi atvinnuleysi á bilinu 3 – 5%. Fyrir því eru ýmsar ástæður, t.d. félagslegar.“

Vantar iðnaðarmenn

Þá skilur hópurinn ekki hvar finna skuli iðnaðarmenn í þau 600 störf sem þarf að fylla við þau tvö kísilver sem áætluð eru í Helguvík.

„Um þessar mundir vantar þrjú þúsund iðnaðarmenn á Íslandi, er haft eftir Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar. Þeir sem fóru til Noregs og hafa komið sér vel fyrir þar eru ekki á leiðinni heim í tímabundin verkefni á miklu lakari kjörum en þeim bjóðast þar ytra. Þeir sem urðu eftir hafa alveg nóg að gera, m.a. við uppbyggingu í kringum flugstöðina og fleira.“

Þá er sagt frá því í pistlinum að Ólafur F. Magnússon, þjónustufulltrúi FIT, stéttar- og fagfélags iðnaðarmanna og fólks í tæknigreinum í Reykjanesbæ, hafi greint frá því að skortur sé á iðnaðarmönnum á svæðinu.

„Því bendir allt til þess að flytja þurfi inn erlent vinnuafl, bæði til að byggja verksmiðjurnar og starfa í þeim. Þannig að um raunverulega atvinnusköpun fyrir fólk í heimabyggð er ekki að ræða, langt frá því.“

Ganga gegn stóriðju

DV greindi frá því um helgina að íbúahópur gegn frekari stóriðju í Helguvík, ásamt Hestamannafélaginu Mána, hvetja bæjarbúa í Reykjanesbæ til þátttöku í kröfugöngu þriðjudaginn 12. maí næstkomandi.

„Hópurinn telur að aldrei muni nást sátt meðal íbúa Reykjanesbæjar um þetta stóra mál öðruvísi en með íbúakosningu,“ segir í yfirlýsingu frá hópnum sem segir að einungis þannig muni fást lýðræðisleg niðurstaða, hver sem hún verður.

Heimild: Dv.is