Home Fréttir Í fréttum Leggja til 270 milljóna hjólastíg og hljóðvegg

Leggja til 270 milljóna hjólastíg og hljóðvegg

215
0
Mynd: Reykjavíkurborg
270 milljónir kostar að leggja hjólastíg meðfram Kringlumýrarbraut frá Miklubraut að Bústaðavegi og reisa hljóðvarnarvegg fyrir íbúa í Stigahlíð, samkvæmt tillögu umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar sem lögð var fyrir borgarráð í gær. Reykjavíkurborg bæri 185 milljónir af kostnaðinum en Vegagerðin 85 milljónir.

Framkvæmdirnar yrðu hluti af hjólreiðaáætlun ársins 2018. Skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds á umhverfis- og skipulagssviði hefur óskað eftir því að borgarráð heimili að framkvæmdirnar verði boðnar út. Gert er ráð fyrir að þær hefjist í maí og verði lokið í nóvember á þessu ári.

<>

Áætlað er að 170 milljónir kosti að gera hjólastíginn við vestanverða Kringlumýrarbrautina og endurnýja göngustíginn samhliða því. Kringlumýrarbraut er stofnbraut og því ber Vegagerðin helming kostnaðarins. Þá er áætlað að 100 milljónir kosti að reisa tveggja og hálfs metra háan hljóðvegg „með fjölbreyttum klifurjurtum og þekjandi undirgróðri“.

Samhliða þessu yrðu lagnir endurnýjaðar á svæðinu á kostnað Veitna og því er gert ráð fyrir að Veitur hefðu forræði yfir framkvæmdinni. Verkefnið yrði unnið í þremur áföngum. Sá fyrsti tæki tvo mánuði og næði frá Miklubraut að gatnamótunum við Hamrahlíð. Annar áfangi tæki einn og hálfan mánuð og næði yfir stuttan kafla við gatnamótin og sá þriðji yrði lengstur: tæki þrjá mánuði og næði upp að Bústaðavegi.

Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Tölvuteikning af svæðinu að framkvæmdunum loknum.
Heimild: Visir.is