Home Fréttir Í fréttum Stutt í útboð á byggingu Húss íslenskra fræða

Stutt í útboð á byggingu Húss íslenskra fræða

187
0
Mynd: arnastofnun.is

Bygging Húss íslenskra fræða verður boðin út eftir nokkrar vikur, segir menntamálaráðherra. Fimm ár eru síðan fyrsta skóflustungan var tekin og þrettán ár síðan ríkisstjórn ákvað að nýta Símapeningana svonefndu til að byggja húsið.

<>

Grunnur að húsinu var grafinn 2013 en eftir það stöðvuðust framkvæmdir.
Fyrir tæpum þrettán árum tilkynnti ríkisstjórnin hvernig verja ætti söluandvirði Símans.

Þá var ákveðið að milljarður króna færi í nýbyggingu fyrir stofnun íslenskra fræða við hlið Þjóðarbókhlöðunnar. Við það tilefni sagði Davíð Oddsson, þáverandi utanríkisráðherra: „Meginhugsunin er sú að við séum að nota tækifærið til að létta af okkur verkefnum sem eru stór í sniðum og myndi vera erfitt að skrapa saman fyrir á fjárlögum hverju sinni.

Menn myndu hika við að byrja á þeim kannski af því að þau eru stór í sniðum, drífa þau verkefni af,“ sagði Davíð.

En það varð bið á því að bygging Húss íslenskra fræða væri drifin af. Fyrsta skóflustunga var tekin átta árum síðar eða í mars 2013. Fljótlega var grafinn grunnur en þar stoppuðu framkvæmdir. Þá um haustið reyndu menn að gera gott úr biðinni og nýttu grunninn til rannsókna á setlögum.

Fyrir þremur árum lagði þáverandi forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, til að húsið yrði risið á aldarafmæli fullveldisins sem er á þessu ári. Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, rifjar þetta upp í færslu á Facebook, fyrsta apríl síðastliðinn. Það hefði mátt skilja fréttir af tillögunni fyrir þremur árum sem aprílgabb, skrifar Eiríkur.

Nú væri í komið í ljós að aprílgabbið væru fréttirnar sem komu í kjölfarið þar sem fullyrt hafi verið að húsið risi fyrir fullveldisafmælið.

„Staðan á þessu verki er sú að í fjárlögum 2018 erum við að verja fjármunum til hússins. Nú hafa hönnuðir verið að endurskoða hönnunina á því. Um leið og búið er að rýna þær tillögur sem hafa borist okkur þá verður gerður endanleg kostnaðaráætlun og þegar hún er tilbúin verður verkið boðið út,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Lilja segir að ekki liggi fyrir hversu miklum fjármunum verður varið í verkið nú. Óvíst sé hvenær unnt verði að bjóða verkið út. „Við höfum verið að tala um einhverjar vikur eða svo en það er of snemmt að segja eitthvað um það á þessum tímapunkti,“ segir Lilja.

En er hægt að giska á eftir hve mörg ár húsið verður tekið í notkun? „Nei, eins og ég segi, við erum að fara að skoða, það þarf að skoða endurhönnun á húsinu. Það þarf að koma inn í mennta- og menningarmálaráðuneytið og við förum yfir það. Þegar það er komið get ég svarað því,“ segir Lilja.

Heimild: Ruv.is