Home Fréttir Í fréttum Hvammsvirkjun hafi neikvæð áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu

Hvammsvirkjun hafi neikvæð áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu

117
0
Hagalón Hvammsvirkjunar yrði fyrir ofan stíflu stutt fyrir ofan Viðey í Þjórsá. Mynd: Fréttablaðið/vilhelm

Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvammsvirkjunar á landslag verði verulega neikvæð. Þá telur stofnunin að fyrirhugaðar framkvæmdir við virkjunina séu líklegar til að hafa talsverð neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu vegna þeirra breytinga sem munu verða á upplifun ferðamanna og þeirra sem stunda útivist á svæðinu.
Þetta kemur fram í áliti Skipulagsstofnunnar á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar en þar með er mati á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar lokið, að því er fram kemur í tilkynningu frá Skipulagsstofnun.

<>

Í tilkynningu kemur fram að Skipulagsstofnun undirstriki mikilvægi þeirra mótvægisaðgerða sem Landsvirkjun hefur lagt til um að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmda við Hvammsvirkjun.

Jafnframt segir stofnunin mikilvægt að ráðist verði í mótvægisaðgerðir vegna neikvæðra áhrifa á landslag, m.a. með útfærslu bakka og stíflugarða svo draga megi eins og kostur er úr manngerðri ásýnd lónsins auk annarra aðgerða.

Landsvirkjun mun nú fara yfir þau atriði sem Skipulagsstofnun bendir á og taka tillit til þeirra við frekari undirbúning og mótvægisaðgerðir. Unnið er að vandaðri útlitshönnun mannvirkja, landslagshönnun, rýni á veigamiklum þáttum hönnunar og útfærslu á mótvægisaðgerðum til að lágmarka umhverfisáhrif, að því er segir í tilkynningu.

Engar framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar eru þó áformaðar á þessu ári.

Heimild: Vísir.is