Home Fréttir Í fréttum Bandaríkjaher býður út framkvæmdir í Keflavík

Bandaríkjaher býður út framkvæmdir í Keflavík

478
0
Mynd: RÚV
Bandaríski herinn hefur óskað eftir tilboðum frá íslenskum og bandarískum verktökum vegna framkvæmda á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Kostnaður við framkvæmdirnar nema 1,7 milljarði íslenskra króna en þær snúast um hönnun og verkframkvæmd vegna breytinga á flugskýli 831 og hönnun og byggingu sjálfvirkrar þvottastöðvar fyrir flugvélar.

Kostnaður vegna breytinganna á flugskýli 831 eru sagður nema 12,8 milljónum dollara eða 1,3 milljörðum.

<>

Á fylgiskjali, sem hægt er að nálgast á vef  á vegum bandaríska hersins, kemur fram að breytingarnar felast í endurnýjun á hurð flugskýlisins og rafkerfi sem flugvélarnar tengjast við.

Þá verður einnig boðin út hönnun og verkframkvæmd vegna byggingar sjálfvirkrar þvottastöðvar fyrir flugvélar. Kostnaðaráætlun vegna verkefnisins nemur 4,3 milljónum dollara eða tæpum hálfum milljarði.

Í fylgiskjalinu kemur fram að framkvæmdirnar séu vegna P8-kafbátarleitarflugvéla.  Fram kom í fréttaskýringarþætinum Kveik í desember að umferð rússneskra kafbáta hefði snaraukist við Ísland  og  eftirlit Atlantshafsbandalagsins samhliða því. Þá kom fram að Bandaríkjaher hefði óskað eftir framlagi í bandarískum fjárlögum fyrir framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli.

Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir vegna flugskýlisins taki um 767 daga og vegna sjálfvirku þvottastöðvarinnar um 589 daga. Verkefnin tvö verða unnin samhliða en aðeins bandarískum og íslenskum fyrirtækjum verður boðið að taka þátt.

Fyrirtæki sem ætla að taka þátt í verkefninu muni þurfa að uppfylla öryggis-og trúnaðarkröfur og að verða að hafa skráð sig í gagnagrunn bandarískra yfirvalda. Þar sem það eru bandarísk yfirvöld sem bjóða verkið munu þær ekki lúta íslenskum lögum og reglum um opinber innkaup.

Heimild: Ruv.is