Home Fréttir Í fréttum IKEA-bræður vilja byggja í landi Brúneggja í Mosfellsbæ

IKEA-bræður vilja byggja í landi Brúneggja í Mosfellsbæ

469
0
Mynd: RÚV
Bræðurnir og athafnamennirnir Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir hafa óskað eftir viðræðum við bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ til að þróa áfram hugmyndir um blandaða atvinnu- og íbúðabyggð þar sem eggjaframleiðandinn Brúnegg var áður með framleiðslu sína.

Þetta kemur fram í bréfi sem Jón sendi bæjarráði Mosfellsbæjar og var tekið fyrir á fundi þess í morgun.  Bréfið sendi Jón fyrir hönd Teigslands ehf sem á samnefnt land en Jón og Sigurður Gísli eiga meirihluta í félaginu á móti fjórðungshlut Bjarna Ásgeirs Jónssonar og systkina.

<>

Í bréfinu segir að frá því að starfsemi Brúneggja lagðist af fyrir rúmu ári hafi verið farið yfir kosti og galla á áframhaldandi nýtingu þess húsnæðis sem sé til staðar. „Niðurstaða okkar er að það sé skynsamlegast að skoða aðra valkosti um nýtingu landsins,“ segir í bréfi Jóns.

Mótaðar hafi verið hugmyndir um að fjarlægja núverandi fasteignir og skipuleggja landið undir blandaða atvinnu-og íbúðabyggð. „Um gæti verið að ræða 10 til 15 þúsund fermetra atvinnuhúsnæði og 200 íbúðir í sérbýli og fjölbýli, bæði á því landi sem er skilgreint í aðalskipulagi sem íbúðasvæði og landbúnaðarsvæði.“

Jón óskar eftir því að fá að kynna þessar hugmyndir fyrir bæjaryfirvöldum við fyrsta tækifæri og fá tækifæri til að þróa þessar hugmyndir og framkvæma í samvinnu við bæjaryfirvöld. Bæjarráð samþykkti að vísa erindinu til umsagnar hjá skipulagsnefnd.

Jón og Sigurður Gísli eiga Miklatorg ehf sem rekur IKEA á Íslandi. Nafnið á félaginu er vafalítið engin tilviljun því fyrsta verslun Hagkaupa, sem faðir þeirra stofnaði, var í upphafi rekið sem póstverslun með bækistöð í fjósi við Miklatorg.  Hagnaður af rekstri félagsins nam 759 milljónum samkvæmt ársreikningi sem skilað var í nóvember 2016.

Eigendur Brúneggja óskuðu eftir því í mars á síðasta ári að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í tilkynningu frá félaginu kom fram að nær öll eggjasala frá fyrirtækinu hefði stöðvast eftir umfjöllun Kastljóss um fyrirtækið í nóvember árið áður.

Heimild: Ruv.is