Home Fréttir Í fréttum Skattrannsóknarstjóri rannsakar Verkleiguna

Skattrannsóknarstjóri rannsakar Verkleiguna

256
0
Mynd: RÚV
Skattrannsóknarstjóri lagði hald á gögn hjá starfsmannaleigunni Verkleigunni í Kópavogi í gær. Að sögn lögmanns fyrirtækisins var það vegna gruns um vantalinn virðisaukaskatt. Fyrirtækið var til skoðunar hjá Eflingu stéttarfélagi í fyrra, vegna gruns um að hlunnfara starfsmenn.

Starfsmannaleigan er starfrækt á efri hæð húss í Kópavogi. Þar eru skrifstofur fyrirtækisins en einnig dvalarstaður erlendra verkamanna. Flestir starfsmennirnir, sem eru iðnaðarmenn, koma frá Litáen en einhverjir eru frá Póllandi.

<>

Fjallað var um Verkleiguna í fréttum RÚV fyrir áramót. Þar kom fram í máli Sigurðar Bessasonar, formanns Eflingar, að talið væri að fyrirtækið – sem er starfsmannaleiga – hafi brotið á erlendu verkafólki með margvíslegum hætti. Starfsmenn hafi meðal annars verið sviknir um laun, orlof og lífeyrissjóðsgreiðslur. Lögmaður Verkleigunnar, Tryggvi Agnarsson, sagði í samtali við fréttastofu í fyrra að málið snerist um fjársvik fyrrverandi rekstraraðila.

Í samtali við fréttastofu í dag segir Tryggvi að rannsókn skattrannsóknarstjóra snúi að því hvort fyrirtækið hafi vantalið virðisaukaskatt í fyrra að fjárhæð um tólf milljóna króna. Þetta hefur ekki fengist staðfest hjá skattayfirvöldum. Í svari við fyrirspurn fréttastofu segist skattrannsóknarstjóri ekki geta tjáð sig um einstök mál.

Heimild: Ruv.is