Landsbankinn hefur ákveðið að ganga til samninga við Arkþing ehf. og C.F. Møller um hönnun og þróun á nýbyggingu bankans við Austurhöfn í Reykjavík. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum. Í tillögunni er húsið nefnt Kletturinn.
Sjö arkitektateymi voru í október sl. valin til að skila inn frumtillögum að hönnun hússins og í janúar bárust bankanum tillögur frá sex teymum, að viðhafðri nafnleynd. Þriggja manna ráðgjafaráð var bankastjóra og bankaráði til fulltingis við ákvörðunina og mælti ráðgjafaráðið með þeirri tillögu sem varð fyrir valinu.
Stefnt að framkvæmdum í byrjun næsta árs
Þegar samningar við tillöguhöfunda liggja fyrir mun vinna við fullnaðarhönnun hússins hefjast. Frumtillagan getur tekið breytingum á hönnunarstigi, þótt heildaryfirbragð hússins verði óbreytt.
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs. Bygging hússins verður boðin út.
Fallegt hús
„Húsið sem Arkþing og C.F. Møller hafa teiknað er fallegt og kallast vel á við umhverfi sitt. Við teljum að það muni sóma sér vel í miðborginni og verði verðmæt eign fyrir Landsbankann.
Tillagan hæfir starfsemi bankans vel og uppfyllir best þær forsendur sem við lögðum upp með. Við hlökkum til að vinna með teymi Arkþings og C.F. Møller að endanlegri hönnun hússins. Einnig þökkum við öðrum arkitektateymum fyrir að senda okkur afar áhugaverðar og vel unnar tillögur,“ segir Helga Björk Eiríksdóttir, formaður bankaráðs Landsbankans í tilkynningunni.
Skipulagið sveigjanlegt
„Við erum að flytja starfsemi bankans í mun minna, hagkvæmara og hentugra húsnæði. Einn helsti kostur tillögunnar er að vinnurýmin eru ákjósanleg og með góðum innbyrðis tengslum sem styðja við nútíma vinnuumhverfi þar sem áhersla verður lögð á verkefnamiðaða vinnuaðstöðu.
Húsið er vel hannað skrifstofu- og verslunarhúsnæði og þeir hlutar hússins sem bankinn hyggst leigja eða selja undir aðra starfsemi eru vel heppnaðir. Það skiptir miklu máli að skipulag hússins er sveigjanlegt og því verður auðvelt að móta húsið að breytingum á starfsemi bankans. Þetta er fjárfesting til framtíðar,“ segir Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
„Skýr afmörkun er á þeim rýmum sem bankinn hyggst nýta og þeirra rýma sem bankinn hyggst leigja eða selja til þriðja aðila en útleigurými er vel afmarkað í norðurhúsi með sér stiga og lyftukjarna en rýmið má einnig tengja við starfsemi bankans.
Almenningsrými utandyra eru áhugaverð. Settröppur nyrst á byggingunni, móts við Hörpu, skapa skilyrði fyrir margbreytilega starfsemi utanhúss og geta orðið áhugaverður áfangastaður,“ segir í umsögn um húsið.
40% hússins verða seld eða leigð
Landsbankinn er nú með starfsemi í 13 húsum í miðborg Reykjavíkur, að langstærstum hluta í leiguhúsnæði.
Núverandi húsnæði bankans er bæði óhentugt og óhagkvæmt fyrir rekstur bankans. Bankaráð Landsbankans ákvað vorið 2017 að byggja húsnæði fyrir starfsemi bankans að Austurbakka 2 við Austurhöfn.
Bankinn mun nýta um 10.000 m2 í nýju húsi, eða um 60% af flatarmáli hússins, en selja eða leigja frá sér um 6.500 m2 sem munu nýtast fyrir verslun og aðra þjónustu. Með flutningi í nýtt hús mun starfsemi sem nú fer fram á um 21.000 m2 rúmast á um 10.000 m2.
Arkitektateymin sem skiluðu inn frumtillögum að hönnun hússins voru:
· Arkþing og C.F. Møller
· BIG og Arkiteó í samstarfi við BIG Engineering, VSÓ ráðgjöf, Dagný Land Design og Andra Snæ Magnason
· Henning Larsen og Batteríið Arkitektar
· Kanon arkitektar ehf. og Teiknistofan Tröð ehf.· PKdM arkitektar
· Teymið – A2F arkitektar, Gríma arkitektar, Kreatíva teiknistofa, Landmótun og Trivium
Í ráðgjafaráðinu sátu G. Oddur Víðisson arkitekt, Halldóra Vífilsdóttir, arkitekt hjá Landsbankanum og Valgeir Valgeirsson, verkfræðingur hjá Landsbankanum.
Hægt er að sjá hinar tillögurnar á vef bankans eða með því að fletta myndasafninu hér fyrir neðan.