Home Fréttir Í fréttum Asbest: Heilu árgangarnir fengu ekki fræðslu varðandi það

Asbest: Heilu árgangarnir fengu ekki fræðslu varðandi það

629
0
mynd: asbest-huset.dk
Það getur kostað hundruð þúsunda að fjarlægja eina asbestplötu í samræmi við lög og reglur og tafið verk um viku eða tvær. Sumir segja að það sé fjárhagslegur hvati til þess að sleppa öllu umstanginu, ganga bara í verkið. Það er óljóst hversu vel íslenskir iðnaðarmenn þekkja asbest en stór hluti þeirra sem nú eru starfandi fékk enga fræðslu um það í skóla. Iðnmeistari sem missti föður sinn úr asbestkrabba segir viðhorf iðnaðarmanna til efnisins stundum skaðleg, þeir geri lítið úr hættunni.

Ekki rífa niður asbest til þess eins að rífa það niður

Íslendingar fluttu inn mikið magn asbests frá lokum seinna stríðs og fram til ársins 1983 þegar það var bannað. Þá var fólki orðið ljóst hvað það er krabbameinsvaldandi. Um níutíu Íslendingar hafa greinst með banvænt fleiðurþekjukrabbamein sem má rekja beint til asbests, þar af um helmingur á síðustu 13 árum. Þetta sýna gögn frá Vinnueftirlitin og Krabbameinsfélagi Íslands. Meinið greinist oft ekki fyrr en áratugum eftir að fólk andar að sér asbestryki. Asbest getur verið í steypu, klæðningu, lögnum, bremsuklossum, þakplötum og víðar.

<>

„Asbest sem stendur óhreyft er ekki hættulegt, ef þú ert með asbest í þakinu heima hjá þér þá er engin ástæða til að missa svefn yfir því. Á meðan það stendur óhreyft og er ekki skemmt er það bara í fínu lagi að hafa það þarna. Maður tekur það niður ef það standa til aðrar breytingar og ef það eru skemmdir.“

Segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirlitinu. Ef ráðast á í framkvæmdir á gömlum húsum; rífa veggi eða þök eða skipta um lagnir, jafnvel bara bora í vegg, þarf fólk að spyrja sig: Er asbest í þessu? Það er til dæmis asbest í nokkrum gömlum leikskólum. Asbestið má kannski vera en það má ekki gleymast, sérstaklega ekki þar – enda börnum meiri hætta búin en fullorðnum, ef ryk losnar út í umhverfið. Kristinn segir alla asbestmengun óholla en að hættan aukist eftir því sem lengur er dvalið í abestmenguðu umhverfi.

Ekki rétt staðið að förgun í sjónvarpsþætti

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Asbest getur verið að finna í húsum sem byggð eru á árunum 1945-1983. Það hefur aldrei verið kortlagt nákvæmlega hvar það er að finna.

Í haust var sýnt frá endurbótum á gömlu húsi í Hlíðunum í sjónvarpsþættinum Gulli byggir á Stöð 2. Það vakti athygli að frárennslislögnum, sem pípulagningameistari sem kom að verkinu taldi að innihéldu asbest, var ekki fargað með réttum hætti.

Reglur brotnar á hverju ári – en hversu mikið er um það?

Kristinn segir að árlega komi upp dæmi um að reglur um meðhöndlun asbests séu brotnar.

„Á hverju ári koma upp eitt til þrjú mál þar sem menn hafa farið í asbestmál í óleyfi vitandi vits, sem vinnueftirlitið hefur komið að og stöðvað. Þetta eru undantekningarmál sem betur fer.“

Þetta séu oft iðnaðarmenn sem telji sig þekkja efnið.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Asbesti hefur verið notað sem íblöndunarefni í þakplötur.

Vinnueftirlitið getur ekki gripið inn í það ef almennir borgarar fjarlægja asbest heima hjá sér, jafnvel í fjölbýlishúsi, þá þarf ekki starfsleyfi. Spegillinn heyrði af því að nýlega hefðu hjón í fjölbýlishúsi fjarlægt asbestdúk af gólfi án nokkurra ráðstafana. „Auðvitað er það þannig að hver og einn maður hefur leyfi til að sinna sínum verkum, maður getur illa gripið inn í það.“  Heilbrigðiseftirlitin gætu aftur á móti gripið inn í slíkt – líklega eru dæmin þó fá.

 

Asbestmál ekki mikið á borði heilbrigðiseftirlita

Af samtölum Spegilsins við forsvarsmenn nokkurra heilbrigðiseftirlita mátti ráða að asbestmál rötuðu sjaldan inn á borð til þeirra, þá virtust þau ekki alltaf skráð sérstaklega. Þeir þekktu einhver dæmi um brot gegn reglugerð um förgun asbests en þau voru fá. Fyrir nokkrum árum birtust til dæmis asbestplötur á gámasvæði í snyrtilegum bunka, ekki komst upp hver skildi þær þar eftir. Þá kom upp lögreglumál á Akureyri árið 2014 þegar í ljós kom að asbestplötur höfðu verið urðaðar ólöglega undir malarplani á iðnaðarlóð.

Þeir vissu ekki hvort mikið væri um að fólk væri sjálft að rífa niður og farga asbesti eða gerði sér jafnvel ekki grein fyrir því hvað það væri með í höndunum. Ekki væri hægt að útiloka það. Einn sagði að líklega veitti ekki af því að auka fræðslu um asbest, hann hafi sjálfur farið á námskeið og verið mjög hugsi eftir það.

„Íslenska reddingin“

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  –  Ruv.is
Nemendur í Tækniskólanum.

Spegillinn ræddi við systkini, konu og karl, sem misstu föður sinn úr asbesttengdu krabbameini fyrir nokkrum árum og hafa áhyggjur af þekkingar- og andvaraleysi fólks gagnvart efninu. Hann er iðnmeistari, útskrifaðist um aldamótin. Asbest hafði þá verið bannað í tæp 20 ár en hann fékk enga fræðslu um efnið í náminu. Hann hefur þó oft rekist á asbest í sínum störfum og segir ekki alltaf staðið faglega að því að fjarlægja það. Hann nefnir dæmi frá því í kringum 2000, þá hafi 15 ára strákar í frystihúsi verið látnir taka niður asbestplötur þegar það var lítið að gera.

Oft sé ekkert brugðist við, menn fái bara skilaboð um að leysa málið. „Ef asbest finnst í byggingu hjá hinu opinbera er oftast kallað til teymi og þetta gert löglega,“ segir hann, „en þegar þetta finnst í heimahúsum fer aldrei neitt ferli af stað“. Hann segir lítið hafa komið að slíkum verkum en að hér áður fyrr hafi þessu bara verið hent út í tunnu, það hafi sennilega ekkert breyst. Þetta kosti mikið og menn fari bara í þetta sjálfir, það sé þessi íslenska redding.

„Jói er stálhraustur“

Þekkingarleysið sé hættulegast, stundum líti þetta út eins og gifs og grunlausum iðnaðarmanni gæti dottið í huga að bora í það, menn viti ekki endilega hvernig þetta lítur út. Þá segir hann viðhorf iðnaðarmanna stundum skaðleg, hann hafi oft heyrt því fleygt að asbest sé ekkert hættulegt, því til staðfestingar sé bent á að Jói eða Siggi hafi unnið með þetta í tugi ára og sé stálhraustur. Spegilinn hafði samband við kennara í iðnskólanum, hann sagði að nú væru nemendur fræddir um asbest, það hafi líklega breyst um aldamótin. Það breytir því þó ekki að stór hluti iðnaðarmanna sem nú er starfandi hefur ekki fengið þessa fræðslu. Kennarinn, sem sjálfur útskrifaðist í kringum 1990, fékk hana til dæmis ekki.

Vinnueftirlitið þurfi að gera betur

Systir mannsins telur Vinnueftirlitið hafa sofnað á verðinum. Þannig líti það allavega út frá hennar sjónarhóli. Það komi bara ein og ein auglýsing öðru hverju þar sem minnt sé á reglugerðir eða námskeið fyrir þá sem hyggist rífa niður asbest. Það þurfi miklu meiri fræðslu. Fólk kaupi kannski hús með asbesti alveg grunlaust, ráðist svo í framkvæmdir. Þá segist hún leið á því að heyra aftur og aftur að asbest sé ekki hættulegt á meðan ekki sé hróflað við því. Á einhverjum tímapunkti sé alltaf hróflað við því.

Krafa um námskeið og starfsleyfi

Allur atvinnurekstur sem gæti haft í för með sér losun asbests út í umhverfið er starfsleyfisskyldur. Það þýðir að í hvert sinn sem iðnaðarmenn rífa hús sem inniheldur asbest eða sinna viðhaldi sem krefst þess að asbest sé fjarlægt, þurfa þeir að sækja um tímabundið starfsleyfi frá heilbrigðiseftirlitinu og heilbrigðisfulltrúi þarf að fara á vettvang og samþykkja verkáætlun. Þá má enginn koma að asbestverki nema hafa lokið sérstöku námskeiði hjá vinnueftirlitinu. Þeir sem fjarlægja asbest þurfa að klæðast hlíðfargöllum og vera með öndunargrímur. Þeir þurfa að fara úr gallanum strax að vinnu lokinni og mega ekki geyma hann eða þvo hann með öðrum fötum. Oft er hann einfaldlega urðaður. Það þarf að pakka efninu og flytja það eftir settum reglum, þannig að ekkert ryk losni og koma því á viðurkenndan urðunarstað, svo þarf að þrífa á vettvangi, tryggja að ekkert ryk verði eftir. Kristinn segir þessar ströngu kröfur hafi verið til staðar í um tvo áratugi. En er þessi háttur hafður á?

Um 5-7% iðnaðarmanna sótt námskeið

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins.

Samkvæmt skráningu Vinnueftirlitsins hefur verið sótt um starfsleyfi vegna 251 asbestsverks, undanfarin 14 ár. Að meðaltali 18 á ári.  Rúmlega 700 iðnaðarmenn og 25 heilbrigðisfulltrúar hafa á sama tímabili setið námskeið um hvernig skuli fjarlægja asbest. Kristinn telur að fræða þurfi iðnaðarmenn betur.

„Þó það séu um 700 manns sem hafa sótt svona námskeið þá eru 10 eða 15 þúsund manns í mannvirkjageiranum.“

Um 5 – 7% þeirra hafa því sótt námskeið. Finnbjörn Hermannsson, hjá Samiðn segir að lítil ásókn sé í að komast á námskeið um hvernig skuli fjarlægja asbest, hann telji því ekki mikið um svona verk. Þá telur hann flesta félagsmenn Samiðnar þekkja efnið en stórefast um að almenningur geri það.
Verktaki sem Spegillinn ræddi við sagði menn ekki nenna að vera í þessu vegna umstangsins, það þurfi grímur og það megi bara vinna með þær í ákveðinn tíma vegna álags sem því fylgi. Hann segist rekast frekar sjaldan á efnið í viðgerðum.

Vitundarvakning: „Fólk hringir og spyr“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Asbest.

Íslenskir aðalverktakar hafa í gegnum tíðina komið að því að fjarlægja mikið magn asbests úr húsum Bandaríkjahers á Miðnesheiði, þekkja efnið því vel. Einar Ragnarsson hjá ÍAV, segir að heilbrigðiseftirlitið bendi fyrirtækjum oft á að leita til þeirra, þeir taki að sér um tvö til þrjú asbestverkefni í mánuði. Hann segir að heilbrigðiseftirlitið fylgi þessum málum mjög vel eftir. Það hafi orðið mikil vitundarvakning, fólk hugsi miklu meira um þetta en það gerði, hringi oft og spyrji hvort það gæti verið asbest í vegg sem það hyggst rífa, til dæmis. Einar segir herinn hafa gert strangar öryggiskröfur á sínum tíma, ÍAV hafi því fylgt ströngum verklagsreglum frá upphafi.

Þarf helst að greina þetta með smásjá

En þekkja iðnaðarmenn almennt asbest í sjón? Einar telur svo ekki vera, það séu helst þessir eldri, sem unnu mikið með asbest á sínum tíma og hafa tilfinningu fyrir því hvar það er að finna. Hinir þekki þetta síður og á námskeiði Vinnueftirlitsins sé ekki farið sérstaklega í það hvernig asbest lítur út. Til að skera úr um það hvort eitthvað inniheldur asbest þurfi að taka sýni og greina það í smásjá.

Miklu dýrara að gera þetta löglega

Leyfin kosta og þeir sem vinna við þetta fá álagsgreiðslur. Einar segir kostnaðinn við verkin alltaf koma fólki á óvart og að líklega sé eitthvað um það að fólk stytti sér leið og spari sér fé með því að gera þetta í leyfisleysi. Kristinn hjá Vinnueftirlitinu segir erfitt að lækka þennan kostnað.

„Þetta eru töluverð fjárútlát sem fólk verður fyrir og kannski áminning um það að þeir sem eru í mannvirkjageiranum þurfa að gæta þess að vera með frávikstilboð í sínum verkum, að ef kemur í ljós asbest mun verkið kosta meira.“

Finnst reglurnar svolítið öfgakenndar

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  –  Ruv.is
Árið 2016 var mikið um að hitaveitulögnum með asbesti væri skipt út fyrir nýjar án þess.

 

Hermann Þór Baldursson, eigandi fyrirtækisins Berserkja, sem einnig sinnir asbestverkum, um 4-6 á ári, segist vita til þess að margir smiðir geri þetta án leyfis í stað þess að leggja út í þetta vesen. Þeir geri þá ekki endilega viðeigandi ráðstafanir. Þá þekkir hann dæmi um að fólk ráðist í þetta sjálft. Það er að hans mati ábyrgðarlaust, sérstaklega ef börn eru á heimilinu. En eru þetta þá smiðir sem hafa farið á námskeið og vita hvernig á að gera þetta, vilja bara spara sér umstangið. Hermann telur að svo sé ekki, þeir sem hafi farið á námskeið geri þetta löglega. Þá bendir Hermann á að það geti tafið verk um viku eða tvær að fá starfsleyfi, það sé ekki síður hvati til að fara á svig við lögin en kostnaðurinn. Hann segir að reglurnar séu kannski hafðar svolítið öfgakenndar, í þeim tilgangi að fá fólk til að bera virðingu fyrir þessu og rifjar upp dæmi af námskeiðinu, sagt var frá manni sem kom heim eftir að hafa unnið í asbesti, þvoði vinnugallann í þvottavélinni, eftir urðu agnir sem fóru á föt dóttur hans, sem fjörutíu árum síðar fékk asbesttengt lungnakrabbamein.

Dæmi eru um að aðstandendur iðnaðarmanna hafi fengið fleiðurþekjukrabba, Kristinn segir þau tilfelli einkum hafa verið rakin til ryks sem þeir báru með heim á vinnugallanum.

Um 200 þúsund – og það þarf að plasta allt heima hjá þér

Spegillinn spurði Hermann hvað það kostaði að fjarlægja eina asbestplötu löglega úr vegg í heimahúsi og hvað fælist í því. Svarið – um hundrað til 200 þúsund krónur. Fyrst þarf fyrirtækið að fara á staðinn og meta aðstæður, svo þarf að sækja um tímabundið starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits og vinnueftirlits, sem kostar um 40 þúsund krónur, síðan kemur heilbrigðisfulltrúi á staðinn, tekur út aðstæður og samþykkir verklagsáætlun, svo þarf að plasta alla hluta íbúðarinnar sem ekki mega verða fyrir mengun. Þessi undirbúningur tekur kannski hálfan dag og kostar um 40 þúsund, við bætist svo plastið sem getur kostað annað eins, fer eftir magni. Það tekur einungis klukkustund að fjarlægja plötuna, kostar um 20-30 þúsund, svo þarf að pakka plötunni og flytja hana á móttökustöð Sorpu í Álfsnesi, taka niður plastið og þrífa á vettvangi, tilkynna vinnu- og heilbrigðiseftirliti um verklok og senda heilbrigðiseftirlitinu förgunarskýrslu. Við bætist að þeir sem koma að verkinu þurfa að klæðast einnota göllum, vera með heilgrímur með hreinsibúnaði og loftdælu á bakinu.

Hleypir ekki ungum mönnum í þetta

Þrír starfsmenn fyrirtækisins eru með réttindi til að fjarlægja asbest. Hermann segir að þetta séu allt eldri menn, hann myndi aldrei taka þá áhættu að hleypa ungum mönnum í þetta. Það sé betra að menn um fimmtugt verði fyrir mengun og myndi æxli um áttrætt en að menn um tvítugt séu útsettir og veikist um fimmtugt.

Hægt að lauma asbestplötu með almennum byggingaúrgangi

En farga þeir sem gera þetta ólöglega efninu með réttum hætti? Ekki endilega, segir Hermann, eftirlit á förgunarstöðum sé lítið og því ekkert sem komi í veg fyrir að fólk hendi þessu í almennan gám fyrir byggingarefni. Björn Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu, viðurkennir að fólk geti laumað asbestsplötu í gám fyrir almennan byggingarúrgang. Hann telur þó ekki mikið um að þetta sé gert. Hann segir að starfsfólk á móttökusvæðum sitji spilliefnanámskeið og fái þar fræðslu um asbest en það þekki það ekki endilega í sjón. Sorpa tekur einungis við asbesti á einum stað, í Álfsnesi, og þar er einungis tekið við því ef það er búið að pakka því í samræmi við reglur.

Tæpum fimmhundruð tonnum fargað rétt árið 2016

Asbest hefur líklega verið urðað víða um land í gegnum tíðina en í dag hafa þrjú fyrirtæki leyfi til að urða asbest; Sorpa, Sorpurðun Vesturlands og Norðurá. Þau taka aðeins við því ef búið er að pakka því í samræmi við reglur. Þegar innflutningur stóð sem hæst voru flutt inn 15 kíló af asbesti á hvern Íslending, 3500 tonn. Það var árið 1980. Frá því skráning hófst, fram til ársins 1995 þegar innflutningur lognaðist nær alveg út af, voru flutt inn um 12 þúsund tonn. En hversu mikið skilar sér nú í urðun?  Í svari Guðmundar B. Ingvarssonar, sérfræðings hjá Umhverfisstofnun, við fyrirspurn Spegilsins kemur fram að árið 2016 hafi 494 tonn af úrgangi sem inniheldur asbest verið urðuð á þessum stöðum, 188 tonn árið 2015 og 114 tonn árið 2014. Þessa miklu aukningu sem varð árið 2016 má fyrst og fremst rekja til endurnýjunar heitavatnslagna. Það eru framkvæmdir sem oft eru gerðar í skorpum og verða til þess að magnið getur sveiflast milli ára.

Heimild: Ruv.is