Signa Hrönn Stefánsdóttir býr í 10 fermetra herbergi í foreldrahúsum ásamt manni sínum og tveimur börnum. Hún skuldar rúmar 34 milljónir, eftir að hafa keypt íbúð skömmu fyrir hrun. Fjöldi fólks sem var með lánsveð á íbúðum sínum í hruninu, gat í flestum tilfellum ekki nýtt sér úrræði sem skuldurum stóðu til boða.
„Í gærkvöldi skelltum við Ljómatúni 11 í lás í hinsta sinn eftir ógeðslega erfiðar undanfarnar vikur.“ Þetta skrifaði Signa Hrönn á Facebook-síðu sína, en færslan hefur vakið mikla athygli.
„Við keyptum íbúðina líklegast á allra versta tíma sem hugsast gat. Geir H. Harde sagði í sjónvarpinu „Guð blessi Ísland“ korteri eftir að við tengdum sjónvarpið okkar í nýju íbúðinni,“ segir hún.
„Þremur mánuðum síðar voru 4 milljónirnar sem við áttum og lögðum í íbúðina gufaðar upp. Bankinn dró lánsloforð sitt til baka þannig að við stóðum frammi fyrir því að þurfa að ganga út á núlli. Bankinn hvatti okkur hins vegar til að fá lánað veð hjá foreldrum okkar því svona yrði þetta ekki í langan tíma. – Í dag er 19 milljón króna lánið sem við tókum orðið tæplega 34 milljónir. Við höfum borgað tæpar 12 milljónir af láninu á þessum tíma eða frá árinu 2008.
Vegna þess að hjónin voru með lánsveð stóðu þeim almennt ekki til boða úrræði fyrir fólk í skuldavanda. „Við pössuðum ekki inn í 110% leiðina. Íbúðalánasjóðslánið var 109% en lánin sem hvíldu á eignum foreldra okkar féllu ekki þar undir. Foreldrarnir okkar reyndu þá að falla undir 110 prósent leiðina en fengu ekki heldur þar sem þau voru ekki greiðendur af láninu.“
Sverrir Bollason fór fyrir hópi lánsveðsfólks á sínum tíma sem barðist fyrir úrlausn sinna mála. Eftir langa baráttu var gert samkomulag við lífeyrissjóðina fyrir síðustu kosningar sem átti að gagnast. Það var síðan fellt úr gildi því núverandi ríkisstjórn taldi að leiðréttingin myndi gera nóg. Leiðréttingin var hins vegar með lægra þaki en 110 prósenta leiðin og tíminn frá hruni hafði reynst mörgum erfiður. „Ég lít svo á að þetta sé eini heildstæði hópurinn sem hefur verið alveg skilinn eftir og verið afskiptur í öllum þessum skuldaleiðréttingaraðgerðum sem farið hefur verið í á undanförnum 6 árum,“ segir hann við Stöð 2.
Heimild: Vísir.is