Home Fréttir Í fréttum Stefna á 1.500 íbúðir við Vífilsstaði

Stefna á 1.500 íbúðir við Vífilsstaði

89
0
Mynd: Haraldur Guðjónsson

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar segir að bæjarfélagið vilji að hægt sé að úthluta lóðum í Hnoðraholti við Vífilsstaðavatn sem fyrst. Vinningstillaga um rammaskipulag svæðisins nær til 145 hektara svæðis milli Kópavogs og Vífilsstaðavatns að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

<>

„Svæðið er eitt flottasta byggingarland á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Gunnar en vestasti hluti Hnoðraholtsins var byggður fyrir 30 árum síðan.

„Af Hnoðraholti er glæsilegt útsýni til allra átta og þar sjáum við meðal annars fyrir okkur byggð á góðu og tiltölulega sléttu landi sem hentar t.d. fyrir lágreist einbýlishús, parhús og raðhús sem eftirspurn er eftir. Vinningstillagan gerir síðan ráð fyrir því að næst skóla- og íþróttasvæði verði fjölbýli sem skapar möguleika á íbúðum fyrir ungar barnafjölskyldur.“

Mögulega þarf að færa hluta af golfvellinum

Verkfræðistofan Efla, Arkitektastofan Batteríið og Landslagsarkitektastofan Landslag standa saman að vinningstillögunni. Gunnar segir að mögulega fari einhver hluti af aðstöðu Golfklúbbs Garðabæjar undir fyrirhugaða byggð og því gæti verið að bæjarstjórnin þyrfti að gera nýjar golfbrautir í stað þeirra sem færu undir væntanlegan skóla og fjölnotaíþróttahús í hverfinu.

Að sögn Gunnars verður næsta verkefni að vinningshafar móti endanlega tillögu að rammaskipulagi í samvinnu við bæjaryfirvöld en í umsögn dómnefndar segir að helsti veikleiki tillögunnar sem þó væri hægt að breyta án umbyltinga á megintillögunni felist í gatnakerfinu í Hnoðraholti.

Heimild: Vb.is