Home Fréttir Í fréttum Hyllir undir bryggjuhverfi á lóð Björgunar

Hyllir undir bryggjuhverfi á lóð Björgunar

309
0
Mynd: Vísir/Getty

Reykjavíkurborg hefur auglýst tillögu að deiliskipulagi fyrir svokallað Bryggjuhverfi vestur á athafnasvæði Björgunar í Sævarhöfða. Gert er ráð fyrir að heildarfjöldi íbúða verði að hámarki 833.

<>

Fyrirhugað deiliskipulag er fyrsti áfanginn í uppbyggingu Elliðaárvogs og Ártúnshöfða en samkvæmt rammaskipulagi svæðisins er gert ráð fyrir að íbúðir á svæðinu gætu orðið á bilinu 5.100-5.600. Svæðinu er skipt upp í nokkra hluta og verður deiliskipulag unnið fyrir hvern hluta fyrir sig.

Það svæði sem hér er fjallað um er við mynni Grafarvogs og austan við ósa Elliðaáa. Stærstu hluti svæðisins er nú athafnasvæði Björgunar en árið 2016 undirrituðu borgaryfirvöld og Björgun ehf. samning þess efnis að fyrirtækið verði með starfsemi á svæðinu til loka maí 2019.

Svæðið sem mun nýtast undir hið nýja Bryggjuhverfi

Meginuppbygging Bryggjuhverfisins mun því vera á lóð Björgunar og gert er ráð fyrir að flest mannvirki á svæðinu víki samhliða uppbyggingu. Þó er gert ráð fyrir að steinsteyptir birgðageymar eða síló sem standa við Sævarhöfða 31 og tengdar byggingar geti staðið áfram og fengið ný hlutverk tengt atvinnu- eða menningarstarfsemi.

Hverfið mun tengjast því Bryggjuhverfi sem fyrir er í Grafarvogi en í deiliskipulagstillögunni er tekið fram að það hverfi hafi liðið fyrir það að hlé varð á uppbyggingu þess þar sem það sé einangrað frá nágrannahverfum. Með hinu nýja Bryggjuhverfi sem og frekari uppbyggingu hins nýja hverfis standa vonir til að hægt verði að tengja eldra Bryggjuhverfið við hið nýja.

Svona er hið nýja Elliðaárvogs/Ártúnshöfðahverfið hugsað. Svæðið sem hér er fjallað um er afmarkað með bláum línum.

Þá er gert ráð fyrir að svonefnt Bryggjutorg verði helsti samkomustaður hverfisins, en umhverfis torgið er gert ráð fyrir að blöndun verslunar, þjónustu,skóla og íbúðarhúsnæðis skapi vettvang mannlífs og menningar innan hverfisins.

Í tillögunni er einnig lögð áhersla á það að almenningur eigi aðgengi að sjónum þar sem möguleiki verði á að fara í manngerða fjöru auk þess sem að gert er ráð fyrir þrepstöllum við síki til að setjast á auk þess sem þar gefst kostur á að upplifa sjávarföll og flæði yfirborðsvatns út í sjó, en síkin stallast niður frá Bryggjutorgi í átt að sjó.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum ljúki innan tíu ára frá gildistöku deiliskipulagsins sem er nú í kynningu. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta geta sent inn ábendingar og athugasemdir við tillöguna en upplýsingar um hvernig megi gera það má nálgast hér auk þess sem þar er hægt að kynna sér tillöguna sjálfa.

Loftmynd af athafnasvæði Björgunar. Fyrirhugaðar lóðir á svæðinu eru afmarkarkað með rauðu.

Heimild: Visir.is