Home Fréttir Í fréttum 20 milljörðum fjárfest í gagnaver

20 milljörðum fjárfest í gagnaver

67
0
©Haraldur Guðjónsson

Þegar eru 300 störf í íslenska gagnaversiðnaðinum.

Á aðeins fimm til sex árum hefur fjárfesting við uppbyggingu íslenska gagnaversiðnaðarins numið í kringum 20 milljarðar króna. Þegar eru 300 föst og afleidd störf í geiranum. Þessu greindi Eyjólfur M. Kristinsson, formaður Samtaka íslenskra gagnavera (DCI), frá á vorfundi Landsnets fyrir skemmstu. Fréttablaðið greinir frá þessu.

<>

Eyjólfur fjallaði um það af hverju Ísland hentar vel til uppbyggingar gagnavera og nefndi meðal annars náttúrulegu kælinguna sem hefur bein áhrif á rekstrarkostnað fyrirtækjanna sem þurfa að kaupa minni orku til kælingar á vélbúnaði en víða annars staðar. Hann sagði einnig tiltölulega lágt orkuverð spila inn í þessa mynd.

Gagnaver á Íslandi nýta 20 megavött (MW) af orku og kaupa árlega rafmagn fyrir um 1,4 milljarða króna. Bandvídd er keypt fyrir 500 milljónir á ári. Bein störf í gagnaverum á Íslandi í dag eru 70 til 100, en afleidd störf eru rúmlega 200 talsins. Því má áætla að um 300 störf séu í greinnni.

Þörf á samkeppnishæfu skattaumhverfi

Eyjólfur sagði þó að það þurfi miklu meira til ef við ætlum að verða samkeppnishæf. Hann varpaði fram þeirri spurningu hver aðkoma stjórnvalda gæti verið til að styðja við gagnaversiðnaðinn til framtíðar. Hann nefndi að skattaumhverfi þyrfti að vera samkeppnishæft við helstu samkeppnislönd og einnig þyrfti að styðja uppbyggingu innviða eins og raforku- og fjarskiptakerfis, menntunar sem nýtist greininni og mikilvægi lagalegrar verndar tjáningar- og upplýsingafrelsis.

Eyjólfur benti á að þau lönd sem við erum helst í samkeppni við fái öflugan stuðning frá stjónrvöldum og árangurinn hefur ekki látið á sér standa, þar nefndi hann Írland, Finnland og Svíþjóð sem dæmi. Hann sagði tækifærin án nokkurs vafa fyrir hendi, tvö prósent allrar orku í Bandaríkjunum er nú þegar nýtt til að reka gagnaver og aðrar tölur væru til marks um það að gagnaveraiðnaðurinn á heimsvísu yxi hraðar en menn gerðu sér almennt grein fyrir.

Heimild: Vb.is