Home Fréttir Í fréttum Samgönguráðherra : Samgönguáætlun var óheppilegur óskalisti

Samgönguráðherra : Samgönguáætlun var óheppilegur óskalisti

146
0
Frá vinnu við mislæg gatnamót Reykjanesbrautar og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Mynd: visir.is/Stöð 2.

Sigurður Ingi Jóhannsson segir samgönguáætlun hafa verið óskalista sem allir vissu að erfitt yrði að fjármagna. Hann kveðst þó gleðjast yfir hverri krónu sem fjárlaganefnd bæti í vegamálin. Rætt var við samgönguráðherra í fréttum Stöðvar 2. 

<>

Samgönguáætlun sem Alþingi samþykkti fyrir aðeins fjórtán mánuðum ætlar að reynast marklaust plagg.

„Það hafi svona verið óskalisti allra. Já, því miður er þetta eitthvað sem allir vissu að yrði erfitt að fjármagna,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

Fram kom í frétt Stöðvar 2 í gærkvöldi að sjö milljarða króna vantar í fjárlagafrumvarpið til að standa við boðuð verkefni samgönguáætlunar á næsta ári. Sjálfur var Sigurður Ingi forsætisráðherra þegar áætlunin var samþykkt, sautján dögum fyrir þingkosningarnar 2016.

-Er þetta ekki ábyrgðarhluti að skapa svona væntingar þegar menn gera sér grein fyrir því að það verði ekki hægt að standa við þetta?

„Jú, ég held að það megi segja það. Ég held að þetta hafi verið óheppilegt að afgreiða þessa samgönguáætlun með svo miklum væntingum.

En það er hins vegar líka á sama tíma ljóst að þetta eru allt brýn verkefni, sem við núna í fjármálaáætluninni og samgönguáætluninni þurfum að taka til okkar og reyna að sýna fram á hvernig við ætlum að fara í á næstu árum.“

Ráðherrann segir að verið sé að fara yfir það núna í ráðuneytinu hvað verði hægt að gera á næsta ári en vill ekki ræða einstök verkefni nema með almennum orðum.

„Það sem við þurfum að horfa til eru auðvitað umferðaröryggismál, – umferðarþungi, – en við þurfum líka að horfa til þess að búa til vinnusóknarsvæði, þar sem fólk getur komist inn á milli staða og unnið á stærri svæðum.

Og við þurfum að horfa líka til þensluáhrifa á svona næstu einu, tveimur, þremur árum, á meðan við erum enn í þessari uppsveiflu.“

Hve mikið fer í vegamálin á næsta ári verður þó ekki ljóst fyrr en Alþingi er búið að afgreiða fjárlög.

-En er hugsanlegt að það verði bætt í?

„Ég veit að í fjárlaganefnd eru margir áhugasamir um vegaframkvæmdir, sem og önnur brýn verkefni, og ég treysti þeim til að fara yfir það hvað þeir treysta sér til að leggja til,“ segir samgönguráðherra en kveðst þó fagna hverri krónu sem bætist í vegamálin.

Heimild: Visir.is