Home Fréttir Í fréttum Nýja varaaflstöðin í Bolungarvík formlega vígð

Nýja varaaflstöðin í Bolungarvík formlega vígð

305
0
Nýja varaaflstöðin í Bolungarvík

Ný varaaflstöð Landsnets, nýtt tengivirki Landsnets og Orkubús Vestfjarða og snjallnetskerfi fyrir Vestfirði, eru tekin í notkun. Þar með er lokið tveggja ára vinnu við að bæta orkuöryggi á Vestfjörðum. Kostnaður við varaaflstöðina, tengivirkið og snjallnetskerfið var einn og hálfur milljarður króna en alls hefur Landsnet varið rúmum þremur milljörðum í að bæta orkuöryggi á Vestfjörðum síðustu ár. Það var Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem tók mannvirkin formlega í notkun í gær með borðaklippingu.

<>

Útbreitt og viðamikið rafmagnsleysi á Vestfjörðum milli jóla og nýárs árið 2012 varð til þess að sjónir manna beindust að því mikla óöryggi sem Vestfirðingar bjuggu við í orkumálum. Þá mátti litlu muna að allt fjarskiptasamband við Vestfirði yrði óvirkt. Eftir það var ákveðið að ráðast í umfangsmiklar úrbætur til að koma í veg fyrir að annað eins ástand og þá ríkti gæti skapast á ný.
Viðbragðstími styttist í eina til tvær mínútur
Í fréttatilkynningu frá Landsneti segir að fyrirtækið hafi átt gott samstarf við Orkubú Vestfjarða við uppbyggingu dreifikerfisins, meðal annars með nýju tengivirki á Ísafirði, endurnýjun og endurbótum á rafmagnslínum, lagningu jarðstrengs milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, byggingu nýs tengivirkis í Bolungarvík og varaaflsstöðvar sem tengist sjálfvirkt inn á netið verði truflun í flutningskerfinu. Þar segir að snjallnetið sé forsendan fyrir auknu rekstraröryggi á Vestfjörðum, en snjallnetið er fjarskiptakerfi sem Landsnet hefur sett upp á Vestfjörðum, til að fást við truflanir á orkuflutningi. Ef orkuvinnsla innan svæðisins nægir ekki til að sinna aflþörfinni, þá leysir snjallnetsbúnaðurinn út allt rjúfanlegt álag á svæðinu og ræsir um leið varavélarnar og lágmarkar þannig truflunina hjá raforkunotendum. Þetta styttir viðbragðstíma á norðanverðum Vestfjörðum úr hálftíma í eina til tvær mínútur.
Sex dísilvélar framleiða 11 megavött

Snjallnetið á Vestfjörðum er hið fyrsta sinnar tegundar á landinu og er Landsnet í hópi leiðandi raforkuflutningsfyrirtækja á þessu sviði í heiminum. Einnig er nýlunda að varaaflsstöð, eins og er í Bolungarvík, þjóni stórum landshluta. Afkastagetan samsvarar orkunotkun norðanverðra Vestfjarða en sex 1,8 MW dísilvélar eru í stöðinni. Framkvæmdir við varaaflsstöðina hófust árið 2013 og tók verkið rúm tvö ár. Kostnaðaráætlunin var um 1,5 milljarður króna en alls hefur Landsnet fjárfest fyrir rúma þrjá milljarða á síðustu þremur árum til að bæta orkuöryggið vestra.

Í framhaldi af umbótum á raforkukerfinu á norðanverðum Vestfjörðum er nú framundan hjá Landsneti að skoða hvernig best megi styrkja afhendingaröryggi raforku á sunnanverðu svæðinu. Jafnframt verða skoðaðir möguleikar á betri samtengingu norður- og suðursvæðisins, sem hluta af langtímalausn fyrir allan fjórðunginn, en að mati Landsnets er aukin orkuframleiðsla innan fjórðungsins forsenda þess að hægt verði að tryggja ásættanlegt raforkuöryggi Vestfjarða til framtíðar.

Heimild: Skutull.is