Rúmlega hálfur milljarður króna verður lagður í hönnun og byggingarframkvæmdir fyrir þing og stjórnarráðsbyggingar á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Fjárheimildir Alþingis aukast um tæp sextán prósent milli ára og forsætisráðuneytisins um 50 prósent.
Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fær Alþingi 375 milljóna króna tímabundið framlag í þrjú ár til að ljúka hönnun og hefja framkvæmdir við nýbyggingu á Alþingisreitnum. Á móti kemur að 87 milljóna króna tímabundið framlag til að ljúka endurgerð Skjaldbreiðar fellur niður.
Forsætisráðuneytið fær 200 milljónir króna vegna stjórnarráðsbygginga. Það er til að mæta undirbúningskostnaði vegna framkvæmdasamkeppni vegna viðbyggingar fyrir forsætisráðuneytið á baklóð Stjórnarráðshússins og vegna undirbúningskostnaðar vegna skipulagssamkeppni um uppbyggingu á Stjórnarráðsreitnum. Stefnt er að því að kynna niðurstöður beggja samkeppna á sýningu sem verður opnuð 1. desember á næsta ári, á hundrað ára fullveldisafmæli Íslands.
Heimild: Ruv.is