Home Í fréttum Undirskrift samninga utboda Skrifað undir samning um niðurrif Sementsverksmiðjunnar á Akranesi

Skrifað undir samning um niðurrif Sementsverksmiðjunnar á Akranesi

336
0
Frá undirritun samningsins. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi og Þorsteinn Auðunn Pétursson, framkvæmdastjóri og eigandi Work North ehf., handsala samninginn. Fyrir aftan þá standa f.v. Lárus Ársælsson, verkfræðingur hjá verkfræðistofunni Mannviti, Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi, Sigurður Páll Harðarson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og Einar Brandsson bæjarfulltrúi. Ljósm. kgk./Skessuhorn

Laust fyrir hádegi í dag var skrifað undir samning milli Akraneskaupstaðar og fyrirtækisins Work North ehf. um niðurrif húsnæðis og búnaðar Sementsverksmiðjunnar á Akranesi. Það voru þeir Þorsteinn Auðunn Pétursson, framkvæmdastjóri og eigandi Work North, og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri á Akranesi, sem skrifuðu undir fyrir hönd samningsaðila.

<>

Aðspurður segir Þorsteinn ætlun fyrirtækisins að hefjast handa við verkið eins fljótt og auðið er. „Framundan næstu daga er undirbúningsvinna en ætlun okkar er að hefja niðurrifið sem allra fyrst, jafnvel gæti verið að einhverjar vélar verði settar í gang fyrir helgi ef vel gengur,“ segir Þorsteinn. „Það er frábært að geta loksins farið að byrja á þessu. Ég er búinn að bíða spenntur eftir þessu í tvo mánuði. Við höfum skilað inn miklu af gögnum og ekkert fyrirtæki hefur farið í gegnum jafn ítarlega skoðun hjá bænum. En við höfum sýnt það á þeim verkum sem við höfum tekið að okkur hingað til að við vinnum okkar vinnu bæði hratt og vel og með sóma,“ segir Þorsteinn.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri segir ánægjulegt að þessum áfanga sé náð og gengið hafi verið frá samningum. „Það er mjög ánægjulegt að vera komin á þann stað að nú sé hægt að fara að hefjast handa við verkið,“ segir Sævar í samtali við Skessuhorn. „Gangi verkáætlun eftir sjáum við síðan fram á að verkinu verði lokið í lok október á næsta ári,“ bætir hann við.

Vegna þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um niðurrif Sementsverksmiðjunnar frá því tilboð voru opnuð í ágústmánuði vill Sævar koma eftirfarandi á framfæri: „Vegna umræðu sem átt hefur sér stað um lægstbjóðanda er rétt að geta þess að fé bæjarbúa er varið með þeim hætti að um framvindugreiðslur er að ræða. Það þýðir að aðeins er greitt fyrir verkið eftir því sem því vindur fram,“ segir Sævar Freyr Þráinsson að endingu.

Heimild: Skessuhorn.is