Home Fréttir Í fréttum Fjórar súrefnishvelfingar verða teknar í notkun í Norðfjarðargöngum á næstu vikum

Fjórar súrefnishvelfingar verða teknar í notkun í Norðfjarðargöngum á næstu vikum

113
0
Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjórar súrefnishvelfingar verða teknar í notkun í Norðfjarðargöngum á næstu vikum. Hver og ein getur hýst 150 manns í nokkrar klukkustundir kvikni eldur í göngunum. Þó að búið sé að opna göngin á enn eftir að klára eitt og annað í göngunum. Súrefnisrýmin eru enn ókláruð og þá eru skemmdir á nýjum vegi að göngunum í Fannardal.

Norðfjarðargöng voru opnuð fyrir hálfum mánuði en þau leysa af hólmi fjallveginn um Oddsskarð. Enn er þó verið að vinna í göngunum í ýmsum stjórn- og öryggiskerfum. Í göngunum verða fjórar sérútbúnar hvelfingar sem fólk getur flúið í komi upp eldur en þá gætu göngin fyllst af reyk. Þessi neyðarrými eiga að vera þétt og rúma marga. „Hvert þeirra á að geta rúmað allt að 150 manns eða ígildi farþegafjölda í tveimur stórum rútum. Það verða súrefnisbirgðir. Það verður neyðarsími, eftirlitsmyndavélar og salerni. Svo það á ekkert að væsa um fólk í þennan tíma sem það þarf að bíða,“ segir Guðmundur Þór Björnsson en hann sinnir eftirliti með framkvæmdinni fyrir hönd Hnits verkfræðistofu. Hann vonar að neyðarrýmin verði tilbúin á næstu vikum.

<>

Norðfjarðargöng stytta leiðina til Norðfjarðar um fjóra kílómetra og Norðfjarðarmegin var nýr vegur lagður að gangamunnanum í Fannardal. Nýi vegurinn þykir hins vegar ósléttur og klæðningin er nokkuð skemmd á um eins og hálfs kílómetra kafla. „Þar var verktakinn má segja óheppinn með tíðarfar. Úrkoma sem menn hafa ekki séð áður. Það má segja að burðarlögin hafi orðið vatnssósa. Það var brugðist við þessum með því að moka upp úr þessum köflum og skipta um efni. Þegar því var lokið þá var tíðarfar eiginlega orðið þannig að þá var ekki hægt að setja klæðningu á það. Það verður lagað við næsta tækifæri sem gefst en hugsanlega ekki fyrr en í vor. Það má búast við því að það þurfi að endurgera eitthvað af þessu því þetta hefur staðið óvarið þennan tíma,“ segir Guðmundur. Hann tekur fram að ekkert bendi til þess að efnið sem notað var í sjálft burðarlagið hafi verið lélagt enda hafi verið tekin sýni úr því reglulega.

Heimild: Ruv.is