Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hefjast við nýtt hjúkrunarheimili í Reykjavík

Framkvæmdir hefjast við nýtt hjúkrunarheimili í Reykjavík

60
0
Mynd: RUV
Framkvæmdir við nýtt, hundrað rýma hjúkrunarheimili í Reykjavík hefjast innan tíðar. Þörfin er þó mun meiri. Borgarstjóri vill samþætta meira heimaþjónustu og heimahjúkrun.

Fyrsta skóflustungan var tekin í dag að nýju hjúkrunarheimili við Sléttuveg í Reykjavík. Þar verða 99 hjúkrunarrými en gert er ráð fyrir að heimilið verði tilbúið innan tveggja ára. Nú þegar bíða 111 á Landspítalanum eftir að komast í hjúkrunarrými svo ljóst er að þörfin er mikil. Dagur B Eggertsson, borgarstjóri, segir stöðuna skelfilega: „Við höfum verið að kalla eftir miklu hraðari uppbyggingu hjúkrunarrýma en líka uppbyggingu annarra hjúkrunarúrræða til þess að sinna fólki sem getur verið heima þar“.

Fyrirséður vandi

Dagur segir stöðuna ekki óvænta, bent hafi verið á þörfina árum saman. Fyrirséð sé að á næstu 7 til 8 árum vanti 2-300 rými til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu. Verði ekkert að gert aukist vandinn enn. „Í mínum huga þá hefur þetta verið nokkuð skýrt í nokkur ár og skýrt að það stefnir í meira óefni því eftir því sem þjóðin eldist þá versnar þetta ástand. Þannig að það þarf að grípa til aðgerða strax.“

Vill auka heimaþjónustu og -hjúkrun

En hefur Reykjavíkurborg gert nóg til að mæta vandanum? „Núna í nokkur ár hefur borgin stigið fram fyrir skjöldu og er með samning við ríkið um samþætta heimaþjónustu og heimahjúkrun og það hefur gefið mjög góða raun. Við erum gríðarlega stolt af þeirri þjónustu og heyrum af landspítalanum að það er hægt að útskrifa fólk fyrr á reykvísk heimili sem fá slíka þjónustu heldur en í nágrannasveitarfélögunum. Við teljum fullt tilefni til að stækka þennan samning, þróa þessa þjónustu ennþá meira þannig að hún nýtist öllum þeim sem vilja gjarnan vera heima en þurfa líka mikla og örugga þjónustu til sín“.

Heimild: Ruv.is

 

Previous articleÍstak bauð lægst í Eldvatnsbrúna
Next articleTvær kærur bárust vegna útboðs á niðurrifi Sementsverksmiðjunnar