Í lok nóvember verður lokið við að reisa nýtt viðbótar hreinsivirki fyrir skólp á Fosshótelinu Vatnajökul á Lindarbakka við Höfn. Í september gerði Heilbrigðiseftirlit Austurlands athugasemdir við lélega skólphreinsun hótelsins og veitti frest til úrbóta til 20. nóvember.
Sótt var um frest til mánaðamóta til að ljúka framkvæmdum sem orðið var við. Hreinsivirkið er komið en unnið er að því að tengja stöðina.
„Við ætluðum að nýta eldri rotþró sem var þarna fyrir en hún var orðin slæm,“ segir Davíð T. Ólafsson framkvæmdastjóri Íslandshótela sem er eigandi Foss-hótelkeðjunnar. Auk þess var rotþróin ekki tæmd í eitt skipti, að sögn Davíðs. Það varð til þess að skólpmengun varð á yfirborði lands við fráveituvirkið, en þetta kom fram í fundargerð heilbrigðisnefndar.
Á hinu Fosshótelinu Jökulsárlón á Hnappavöllum virkaði ekki lífræn skólphreinsistöð sem skyldi. Ástæðan fyrir því er sú að hún varð fyrir hnjaski í miklum vatnsflaumi í vor. Viðgerð á henni er lokið. „Það er búið að taka sýni og þau eru öll í rétta átt. Sú hreinsistöð er að þróast í rétta átt,“ segir Davíð. Hann tekur fram að það taki tíma fyrir gerla að virka eins og vera ber. Helga Hreinsdóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands, bendir á að hægt sé að flýta fyrir virkni gerlanna með því að setja efni saman við þróna.
„Þetta hefur tekið mjög langan tíma en er í rétta átt núna,“ segir Helga.
Heimild: Mbl.is