Home Fréttir Í fréttum Reyna að lokka Pólverja aftur heim til Póllands vegna skorts á vinnuafli...

Reyna að lokka Pólverja aftur heim til Póllands vegna skorts á vinnuafli þar

89
0
Mynd: Vísir/Daníel Rúnarsson

Frá því að ESB stækkaði til austurs 2004 er talið að um 2,4 milljónir Pólverja hafi haldið í vesturátt í leit að vinnu. Fyrirtæki í vesturhluta álfunnar hafa notið góðs af þessu og fengið mikið af góðu starfsfólki frá Póllandi til sín. Í Danmörku er talið að tæplega 40.000 Pólverjar starfi í dag en nú vilja pólsk yfirvöld fá þá aftur heim því nú er þörf fyrir þetta vinnuafl í heimalandinu.

<>

Atvinnuleysi mælist lítið í Póllandi og mörg fyrirtæki glíma við skort á starfsfólki. Henryka Moscicka-Dendys, sendiherra Póllands í Danmörku, er því farin að reyna að lokka Pólverja, búsetta í Danmörku, aftur heim. Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hún að það vanti fólk til starfa í byggingaiðnaðinum sem og í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórnin hafi gert það að forgangsverkefni að fá Pólverja aftur heim.

Pólskur efnahagur blómstri um þessar mundir og nú þurfi að fá starfsfólk frá ríkjum utan ESB til starfa í Póllandi. Pólsk yfirvöld hafa veitt um einni milljón Úkraínumanna atvinnuleyfi en auk þeirra starfar töluverður fjöldi fólks frá Hvíta-Rússlandi og öðrum fyrrum ríkjum Sovétríkjanna í Póllandi. Einnig er töluverður fjöldi fólks frá Asíu við störf í landinu.

Markmiðið nú er að fá 200.000 Pólverja til að snúa aftur heim. Sendiherrann vildi ekki segja hversu marga væri stefnt á að fá heim frá Danmörku en það væri töluverður fjöldi. Sendiherrann er nú á faraldsfæti um Danmörku til að hitta samlanda sína og ræða við þá og segja þeim að nú sé þörf fyrir þá í heimalandinu. Pólsk stjórnvöld hafa gripið til ýmissa aðgerða til að laða fólk heim aftur og til dæmis hafa barnabætur verið hækkaðar ríflega og börn þeirra sem snúa aftur heim fá sérstaka aðstoð við heimkomuna.

Jótlandspósturinn hefur eftir formanni samtaka danskra atvinnurekenda að Pólverjar séu mjög mikilvægir fyrir danskt atvinnulíf og það verði að taka það mjög alvarlega að nú sé verið að reyna að fá Pólverja aftur heim. Þetta þýði að í framtíðinni verði að sækja vinnuafl út fyrir ESB.

Heimild: Dv.is