Í ákærunni er framkvæmdastjóranum gefið að sök hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og ekki greitt virðisaukaskatt um nokkurra mánaða skeið á árunum 2011 og 2012. Í ákærunni er upphæðin sögð nema rúmum þrjátíu milljónum.
Þá er honum gefið að sök að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda. Brotin eru í ákærunni sögð hafa hafist um mitt ár 2011 og staðið fram í maí árið 2012. Upphæðin í ákærunni er sögð nema tæpum 38 milljónum.
Framkvæmdastjórinn er einnig ákærður fyrir skilasvik. Hann er sagður hafa fengið starfsmenn framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar til að greiða andvirði tveggja lokauppgjöra, um 50 milljónir króna, inn á reikning fyrirtækisins hjá Íslandsbanka en uppgjörin voru gerð vegna verksamninga um Sæmundarskóla og Norðlingaskóla. Þetta er hann sagður hafa gert þrátt fyrir að hafa vitað að greiðslurnar hefðu verið settar að veði til tryggingar greiðslu skulda Adakris við MP Banka.
Adakris var um tíma stærsti verktaki Reykjavíkurborgar eftir hrun en fram kom í Fréttablaðinu árið 2009 að fyrirtækið hefði fengið greiddar 385 milljónir króna á því ári. Þá ætlaði fyrirtækið að taka þátt í stofnun og rekstri einkasjúkrahúss í borginni en hætti síðan við.
Adakris var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2013 og lauk skiptum í búið tveimur árum seinna. Lýstar kröfur námu 234 milljónum og fundust engar eignir í búinu, samkvæmt auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu.
Framkvæmdastjórinn er einnig ákærður ásamt öðrum manni fyrir brot gegn skattalögum og almennum hegningarlögum hjá öðru verktakafyrirtæki. Það var úrskurðað gjaldþrota fyrir fjórum árum og námu lýstar kröfur í búið 255 milljónum. Engar eignir fundust í búinu, samkvæmt auglýsingu sem birtist í Lögbirtingablaðinu.
Athygli vekur að ákæran í málinu var gefin út um miðjan júní. Fréttastofa óskaði fyrst eftir henni í byrjun júlí þegar átti þingfesta hana fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur en erfiðlega gekk hins vegar að birta öðrum mannanna ákæruna. Það tókst svo loksins.
Heimild: Ruv.is