Home Fréttir Í fréttum Nýtt íbúðahverfi í smíðum á Húsavík

Nýtt íbúðahverfi í smíðum á Húsavík

104
0
Nýju parhúsin spretta nú upp hvert af öðru á Húsavík. Mynd: Stöð 2/Arnar Halldórsson

Fasteignaverð hefur hækkað um fjörutíu prósent á Húsavík á skömmum tíma. Nýtt íbúðahverfi sprettur nú upp og er byggingartími einstakra húsa aðeins um fjórir mánuðir. Sýnt var frá framkvæmdum í fréttum Stöðvar 2 og rætt við Berg Elías Ágústsson, verkefnisstjóra PCC Seaview Residences ehf., og Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóra Norðurþings.

<>

Nýbyggingarsvæðið er syðst á Húsavík í hverfi sem kallast Holtahverfi. Þar ganga hlutirnir hratt fyrir sig. Fyrstu grunnar voru teknir í júlímánuði og stefnt að því að flutt verði inn í fyrstu húsin í nóvember.

Dótturfélag PCC, sem Húsvíkingar nefna Sjávarsýn upp á íslensku, er að byggja ellefu parhús með 22 íbúðum í fyrsta áfanga. Þær verða í tveimur stærðum, þær minni 77 fermetrar en þær stærri 90 fermetrar.

Bergur Elías segir hverfið frábært, með útsýni yfir Skjálfandaflóa og stutt frá golfvellinum. Hann segir hörgul á húsnæði hafa valdið því að PCC hóf þetta stóra verkefni, að aðstoða við uppbyggingu íbúða.

Því hefur verið spáð að íbúum á Húsavík fjölgi um tvö til fjögurhundruð manns vegna kísilversins.

„Fasteignamat hækkaði um 40 prósent hérna á Húsavík þannig að eignamyndunin er auðvitað mjög mikil. En fasteignaverðið var mjög lágt og erfitt að sannfæra menn um að byggja. Það er því betur að breytast,” segir sveitarstjórinn Kristján Þór.

Og það eru fleiri aðilar en dótturfélag PCC farnir af stað.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá einkaaðila vera að byggja, ungt fólk, sem er að reisa sér hús. Ég vona að það verði bara fleiri sem munu gera það,” segir Bergur Elías.

Sjávarútsýnisfélag PCC hefur lóðir undir tvöfalt fleiri íbúðir. Ákvörðun um hvort eða hvenær hafist verði handa við síðari áfanga verður þó ekki tekin fyrr en þeim fyrsta er lokið.

Meirihluti nýju parhúsanna hefur þegar verið leigður til væntanlegra starfsmanna PCC. Bergur Elías segir það ekki endilega markmið félagsins að eiga húsin.

„Þegar fram líða stundir er það allavega mín von að þessar eignir verði seldar og fólk festi rætur hér og þetta verði góð búbót við húsnæðismálin hér á Húsavík.”

Heimild: Visir.is