Ný brú yfir Ölfusá verður stagbrú með sextíu metra háum turni. Brúin mun létta á umferð á núverandi brú sem er orðinn rúmlega 70 ára gömul og farin að láta á sjá. Nýja brúin mun kosta um fimm milljarða króna og gæti orðið tilbúin eftir níu ár. Nýja Ölfusárbrúin mun fara yfir efri Laugardalaeyju út í Ölfusá. Þetta verður glæsilegt mannvirki með um sextíu metra háum turni.
Núverandi Ölfusárbrú er orðinn gömul og lúin og annar vart allri þeirri umferð sem fer yfir brúnna, eða um 15 þúsund bílar á dag. Tæring er komin í burðarvirki og ryðblettir hér og þar enda er Vegagerðin með brúnna í stöðugri vöktun þar sem breytingar á burðarvirkinu eru metnar. Það verða því margir sem fagna nýrri brú en gamla brúin verður áfram á sínum stað.
„Við ætlum okkur að byggja um 300 metra stagbrú, kapalbrú, norðan Selfoss. Hún er fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og ein af lengri brúm landsins,“ segir Guðmundur Valur Guðmundsson forstöðumaður hönnunardeildar hjá Vegagerðinni. Hann segir stagbrú henta vel fyrir þessar aðstæður, eins og stór flóð og jarðskjálfta. Hann segir framkvæmdatímann vera tvö til þrjú ár.
„Á tólf ára samgönguáætlun, þá er gert ráð fyrir þessu á svokölluðu þriðja tímabili, 2023 til 2026. Ef eitthvað breytist í fjárveitingum eða öðru slíku þá gæti þetta færst framar,“ segir Guðmundur. Hann segir að gert sé ráð fyrir göngu og hjólaleið yfir brúna.
Heimild: Visir.is