Home Fréttir Í fréttum Samningum um lóð undir sólarkísilver á Grundartanga rift

Samningum um lóð undir sólarkísilver á Grundartanga rift

167
0

Silicor Materials hefur fallið frá samningum um lóð og hafnar­aðstöðu á Grundartanga þar sem bandaríska fyrirtækið vildi byggja sólarkísilverksmiðju. Þetta staðfestir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, en málið var tekið fyrir á stjórnarfundi þeirra í gær.

<>
Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

„Niðurstaðan er sú að þau sendu okkur bréf þar sem þau segja sig frá samningunum. Við gáfum þeim kost á að ganga frá þeim ef ekki lægi fyrir fjármögnun og nú liggur fyrir afstaða þeirra um að þeir hafi ekki getað fjármagnað verkefnið,“ segir Gísli.

Fréttablaðið greindi í febrúar 2014 frá áformum forsvarsmanna Silicor um verksmiðju á Grundartanga sem átti að skapa 450 störf. Heildarfjárfesting verkefnisins var síðar metin á 900 milljónir Bandaríkjadala eða 96 milljarða króna. Fyrirtækið samdi við Faxaflóahafnir í apríl 2015 og áttu samningarnir að taka gildi í apríl í fyrra. Silicor fékk lokafrest í janúar síðastliðnum á gildistöku samninganna sem rann út 15. september.

„Þeir eru að vísu ekki búnir að gefa upp alla von um að verkefnið geti orðið að veruleika og vilja viðræður um það. Við teljum ekki ástæðu til að fjalla um það á þessu stigi því það er ekkert nýtt í málinu,“ segir Gísli, en bréf Silicor er dagsett 24. ágúst.

Fyrri hluta fjármögnunar sólarkísilversins lauk í ágúst 2015 og var þar um að ræða fjórtán milljarða króna hlutafjársöfnun. Samkomulag við Orku náttúrunnar, sem átti að tryggja verksmiðjunni tæplega helming þeirrar raforku sem hún hefði þurft, rann út í lok mars síðastliðins. Í byrjun júní tilkynnti fyrirtækið að áformin stæðu óhögguð þrátt fyrir ákvörðun um að hægja á undirbúningnum. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um að verksmiðjan þyrfti ekki að fara í umhverfismat var felld úr gildi í Héraðsdómi Reykjavíkur um tveimur vikum síðar.

Heimild: Visir.is