Home Fréttir Í fréttum Hótel í gömlu mjólkurstöðinni við Snorrabraut

Hótel í gömlu mjólkurstöðinni við Snorrabraut

465
0
Mynd: +Arkitektar

Gamla mjólkurstöðin við Snorrabraut, sem lengi vel hefur hýst Söngskólann í Reykjavík, mun líklega verða breytt í hótel ef áætlanir fjárfesta um viðbyggingu við húsið ganga eftir.

<>

Skólinn seldi húsið til félagsins Sandhótels fyrr í sumar og er kaupverðið talið hafa verið hátt í 600 milljónir. Fjárfestar hyggjast nú byggja nýbyggingar við hlið hússins sem stendur við Snorrabraut 54 að því er Morgunblaðið greinir frá. Félagið Sandhótel er tengt rekstri Sandhótels á Laugavegi 34a til 36, sem jafnframt tengist byggingu hótels á Vegamótastíg.

Hugmyndir fjárfesta og arkitekta fela í sér samtengda nýbyggingu vestan og sunnan við gömlu mjólkurstöðina, sem koma þar sem nú eru bílastæði og æfingasalir skólans sem innréttað hafa verið í gömlum geymslum við húsið.

Hótel, verslun, þjónusta og jafnvel íbúðir

+Arkitektar hafa lagt fram umsókn í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur um breytingar á deiliskipulagi svonefnds Heilsuverndarreits. Felur umsóknin í sér gerð nýbyggingar með verslun, þjónustu og hóteli, en einnig koma íbúðir til greina.

Hús söngskólans var byggt árið 1929 sem mjólkurstöð með smjör- og ostagerð, en síðar keypti tölvufyrirtækið Oz húsið af Osta- og smjörsölunni, áður en það seldi það til Söngskólans í Reykjavík. Ætlunin er að steyptur strompur við húsið haldi sér.

Hönnuðurinn lærði hjá Guðjóni Samúelssyni

Hönnuðurinn að húsinu var Einar Erlendsson húsameistari sem var aðstoðarmaður Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins sem teiknaði meðal annars Héraðsskólann í Reykholti, en líkindi eru sögð vera með byggingunum tveimur.

Nefndi Guðjón útlit þess húss íslenskan hamrastíl, en einnig má segja að það sé svipur með húsinu og Sundhöll Reykjavíkur sem er vestan við húsið, sem einnig var unnin af teiknistofu Guðjóns Samúelssonar húsameistara. Er ætlunin samkvæmt Morgunblaðinu að taka mið af arkitektúr mjólkurstöðvarinnar og Sundhallarinnar við hönnun nýbygginga, og er ætlunin að skapa heilstætt yfirbragð sem styrki götumyndina.

Heimild: Vb.is