Home Fréttir Í fréttum „Reykjavíkurborg er besti vinur kennitöluflakkaranna“

„Reykjavíkurborg er besti vinur kennitöluflakkaranna“

319
0
Garðar Þorbjörnsson Eigandi Urðar og Grjóts hefur fengið nóg af því að keppa við kennitöluflakkara og glæpamenn. Mynd: Dv.is / Brynja

„Það er nokkuð ljóst að Reykjavíkurborg er besti vinur kennitöluflakkaranna. Urð og Grjót er eitt af fáum jarðvinnuverktakafyrirtækjum sem hafa verið að borga skatt undanfarna áratugi og það er óþolandi að þurfa að keppa við rekstrarsóða og glæpamenn. Það sér það hver maður að það er ekki mikil sanngirni í þessu,“ segir Garðar Þorbjörnsson, stærsti eigandi Urðar og Grjóts ehf., í samtali við DV.

<>

Í byrjun vikunnar samþykkti Innkauparáð Reykjavíkurborgar að taka tilboði lægstbjóðanda, Háfells ehf., í gatnagerð og lagnir á nýju byggingarsvæði á Strætóreitnum við Kirkjusand. Háfell var áður eitt umsvifamesta verktakafyrirtæki landsins og kom að stórum verkefnum eins og Héðinsfjarðargöngum og tvöföldun Reykjanesbrautar.

1,2 milljarða gjaldþrot

Síðan fór að halla undan fæti og fyrir rúmu ári var fyrirtækið, sem þá var rekið á 30 ára gamalli kennitölu, úrskurðað gjaldþrota. Ekkert fékkst upp í kröfur í þrotabúið sem hljóðuðu upp á 1,2 milljarða króna. Eigandi Háfells ehf. var Skarphéðinn Ómarsson og svo heppilega vildi til að árið 2007 stofnaði hann annað fyrirtæki, Hálsafell ehf. Það fyrirtæki var í helmingseigu hans og Jóhanns Gunnars Stefánssonar til að byrja með en árið 2013 var fyrirtækið komið að fullu og öllu eigu Skarphéðins. Tveimur árum síðar var eiginkona Skarphéðins, Linda Arilíusdóttir, orðinn eigandi alls Hálsafells ehf. Staðan í dag er sú Linda á enn 99,2 prósenta hlut í fyrirtækinu en Pétur Guðmundsson á 0,8 prósenta hlut í gegnum félagið Mókoll ehf.

Í febrúar á þessu ári var nafni fyrirtækisins breytt í Háfell ehf. og síðan gerði fyrirtækið tilboð í hið umfangsmikla verkefni á Kirkjusandi. Háfell bauð 223,5 milljónir verkið sem samsvaraði 97 prósentum af kostnaðaráætlun. Næstlægsta tilboð átti fyrirtæki Garðars, Urð og Grjót ehf., en tilboð þess hljóðaði upp á 227,2 milljónir króna.

Innkaupareglur sem ganga ekki nógu langt

DV fjallaði á dögunum um viðskipti Reykjavíkurborgar við verktakafyrirtæki sem er starfrækt á sinni fjórðu kennitölu. Eigandi félagsins, Kristján Ólason, hafði á rúmum áratug, rekið að minnsta kosti sex fyrirtæki í þrot og rannsakar skattrannsóknarstjóri nú meint brot í tengslum við rekstur fyrirtækjanna. Þrátt fyrir þessa slóð gjaldþrota þá ganga innkaupareglur Reykjavíkurborgar ekki nógu langt til þess að koma í veg fyrir athæfi sem þetta.

Samband íslenskra sveitarfélaga setti fram fyrirmynd að innkaupareglum sveitarfélaga árið 2007 og þar var mælst til þess að viðskiptasaga þeirra sem leituðu eftir samningum við sveitarfélög yrði skoðuð. Ef sú könnun leiddi í ljós að eigandi eða fyrirtæki hefði lent í greiðslustöðvun eða gjaldþroti undanfarin fimm ár á undan bæri að vísa þessum aðila frá útboðinu, að því gefnu að í hlut ætti sams konar rekstrareining, með sömu eða nær sömu eigendur og í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi en með nýja kennitölu. Gildandi innkaupareglur borgarinnar, frá árinu 2014, tóku ekki mið af þessum tilmælum og því þrífast viðskipti borgarinnar við kennitöluflakkara.

Garðar er harðorður um ástandið hjá Reykjavíkurborg. „Fyrir um tíu árum var Reykjavíkurborg líklega besti verkkaupi sem völ var á. Síðan þá hefur ástandinu hrakað mjög og núna er þetta langversti verkkaupi sem hugsast getur. Það er einfaldlega þannig að ef menn komast í önnur verk þá fara þeir miklu frekar í þau heldur en að vinna fyrir borgina. Það þarf að vera eitthvað sérstakt til þess að ég nenni að gera tilboð í verk hjá Reykjavíkurborg. Síðan kemur í ljós að þeir púkka upp á glæpamenn,“ segir Garðar herskár. Aðspurður hverju sé um að kenna að þessi málaflokkur hjá borginni sé í ólestri segir Garðar: „Eftir höfðinu dansa limirnir. Hverjir eru búnir að stjórna hér í tæpan áratug?“ Þá gagnrýnir hann þá staðreynd að tilboðsgjafar fái ekki að vera viðstaddir þegar tilboðin eru opnuð og segir að það skapi tortryggni.

Blessun borgarlögmanns

Á áðurnefndum fundi Innkauparáðs borgarinnar í vikunni var samþykkt að ganga til samninga við Háfell ehf. með tveimur atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar gegn einu atkvæði fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Björn Gíslason, og áheyrnarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, Jóna Björg Sætran, bentu bæði á rekstrarsögu Háfells og lagði Björn fram bókun þess efnis að mikilvægt væri að kanna rekstrarsögu fyrirtækja og ekki skyldi ganga til samninga við fyrirtæki sem nýlega hafa orðið gjaldþrota.

Dóra Magnúsdóttir og Magnea Guðmundsdóttir, fulltrúar Samfylkingarinnar og Bjartrar framtíðar, báru fyrir sig álit borgarlögmanns sem komst að þeirri niðurstöðu að Háfell ehf. uppfyllti skilyrði í innkaupareglum borgarinnar. Til viðbótar létu fulltrúarnir bóka eftirfarandi klausu: „Fulltrúarnir telja brýna ástæðu til áframhaldandi endurskoðunar innkaupareglna Reykjavíkurborgar er lúta að kennitöluflakki og viðskiptasögu.“

DV freistaði þess að fá afrit af áliti borgarlögmanns en svör höfðu ekki borist þegar blaðið fór í prentun.

Heimild: Dv.is