Home Fréttir Í fréttum 1,8 milljarða króna gjaldþrot vinnuvélarisa

1,8 milljarða króna gjaldþrot vinnuvélarisa

147
0
Mynd: Visir.is

Skiptum er lokið á búi AB-257 ehf sem hét Kraftvélar frá árinu 1992 til ársins 2008 og var úrskurðað gjaldþrota árið 2010. Nam gjaldþrotið 1,8 milljörðum króna en 85 milljónir króna greiddust upp í kröfur. Frá þessu er greint í auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag.

<>

Um er að ræða fyrirtæki sem um árabil var leiðandi í innflutningi og þjónustu við vinnuvélar og verktaka hér á landi. Ævar Björn Þorsteinsson, eigandi Kraftvéla, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið skömmu eftir gjaldþrot að ástæðan væri stöðvun framboða og útboða í landinu eftir hrun.

„Kúnnarnir mínir eru allflestir dauðir, tekjurnar farnar og það kemur ekkert í kassann þannig að spilaborgin hrundi,“ sagði Ævar. Eftir að það hafði verið lýst gjaldþrota snemma árs 2010 var það auglýst til sölu. Fyrrverandi eigandi, Ævar Björn keypti nafnið og lausamuni.

Við það tilefni sagði Reynir Kristinsson, lögmaður sem kom að skiptunum fyrir hönd Landsbankans, að ferlið hefði verið eðlilegt. Mikilvægt geti verið að klára svona mál fljótt, bæði fyrir starfsfólk og viðskiptavini. Með í kaupunum hafi fylgt skuldbindingar við starfsfólk. Lager fyrirtækisins var ekki seldur, heldur leysti Landsbankinn hann til sín.

Fleiri fyrirtæki tengd Kraftvélum voru úrskurðuð gjaldþrota árið 2010, svo sem eignarhaldsfélagið Karl, Kraftvélaleigan og KFD sem var systurfélag Kraftvéla í Danmörku sem nokkru fyrr var lýst gjaldþrota.

Heimild: Visir.is