Home Fréttir Í fréttum Skiptar skoðanir um nýjan miðbæ á Selfossi

Skiptar skoðanir um nýjan miðbæ á Selfossi

233
0
Mynd: Skjáskot af Ruv.is
Það eru skiptar skoðanir um tillögur að nýjum miðbæ á Selfossi. Bæjarbúar hafa áhyggjur af því að þrengt sé of mikið að opnum svæðum. Framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar segir mikilvægt að auka aðdráttarafl Selfoss, sér í lagi þegar þjóðvegurinn færist norður fyrir bæinn.

Framtíð miðbæjarins á Selfossi hefur verið uppspretta deilna í mörg ár og jafnvel áratugi. Þar er stórt opið svæði og lengi hefur staðið til að búa til miðbæ eins og þekkist víða um land, með þröngum götum og klassískri bæjarmynd. Í nýju miðbæjarskipulagi eru söguleg timburhús áberandi. Framkvæmdirnar eiga að taka fjögur ár en talið er að þær kosti þrjá til fjóra milljarða króna.

<>

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins Árborgar, segir mikilvægt að auka aðdráttarafl bæjarins. „Þegar þessi hugmynd kom hér upp og þetta félag, Sigtún þróunarfélag, sem stendur á bak við þetta var tilbúið að fara í þetta þannig að þeir myndu sjálfir annast gatnagerð og allt þess háttar þannig að það lendir engin fjárhagsleg skuldbinding á sveitarfélaginu þá sáum við tækifæri á því að hér myndi byggjast upp líflegur miðbær með fjölbreyttri starfsemi fyrir alla okkar íbúa, fyrir alla okkar gesti og við fengjum eitthvað nýtt í bæinn sem væri aðdráttarafl bæði dregur að nýja íbúa, þjónar betur þeim sem að búa hér og dregur að gesti,“ segir Ásta.

Íbúar hafa áhyggjur af því hvað verður um Sigtúnsgarð, þar sem bæjarhátíðir hafa verið haldnar síðustu ár. „Ég held að þeir hafi gert smá mistök með því að stækka sig inn í garðinn þannig að þeir fá meiri andstöðu núna, eitthvað verðum við að byggja þarna en hvað það tekur langan tíma verður bara að koma í ljós,“ segir Kristján Már Gunnarsson íbúi á Selfossi. Salóme Þorbjörg Guðmundsdóttir hefur einnig áhyggjur af garðinum. „Mér finnst allt í lagi að það sé byggt þarna en ég veit ekki alveg hvort ég er sátt við bæði húsin og stækkunina, lenginguna inn í garðinn. Ég vil hafa bæjargarðinn. Svo náttúrulega þessi kirkja, mér finnst hún ekki eiga heima þarna,“ segir Salóme.

Kirkjan á að rísa við hlið endurbyggðra húsa sem hafa annað hvort verið rifin eða brunnið. Sigurður Einarsson arkitekt segir að þarna verði söguleg byggð í bland við ný hús. Í þeim verði fjölbreytt starfsemi og garðurinn haldi sínu. „Við munum stækka garðinn miðað við þær kynntu tillögur sem hafa verið en auðvitað sem miðbær þá mun þetta fléttast allt saman sem eitt stórt almenningsrými. Við verðum með þrjú torg, vistgötur sem væri auðvelt að loka þegar að eitthvað er að gerast hér í garðinum.“

Heimild: Ruv.is