Home Fréttir Í fréttum Byggja nýjan sölu- og þjónustuskála á Þórshöfn

Byggja nýjan sölu- og þjónustuskála á Þórshöfn

160
0
Mynd: þórshöfn

N1 hefur ákveðið að byggja nýjan sölu- og þjónustuskála á Þórshöfn í stað þess sem brann til grunna í desember. Heimamenn segja að gamli skálinn hafi þjónað hlutverki félagsmiðstöðvar í bænum og fagna þeir því að nýr skáli skuli rísa.

<>

Elías Pétursson, sveitarstjóri á Þórshöfn, segir að á fundi sveitarstjórnar fyrir helgi hafi verið lögð fram frumdrög að teikningu af nýjum þjónustuskála. „Þær voru samþykktar þar. Þær höfðu áður verið samþykktar á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar. Nú er verið að hanna húsið og verður, að því er ég best veit, byrjað að byggja í haust.“

Grillskáli N1 brann til kaldra kola í desember síðastliðinn. Var um að ræða einu bensínstöðina í byggðarlaginu og var ekkert eldsneyti til sölu í bænum um nokkra daga skeið. Verið var að vinna við framkvæmdir, meðal annars að skipta um olíutanka, þegar eldurinn kom upp.

Gegndi hlutverki félagsmiðstöðvar
Elías segir mikla ánægju vera í sveitarfélaginu vegna framkvæmdanna, en fyrri skálinn þjónaði að ákveðnu marki hlutverki félagsmiðstöðvar. „Það er mikil ánægja með þetta og það eru engar ýkjur að þetta var félagsmiðstöð íbúa. Þarna hittust menn, fengu sér kaffi og spjölluðu. Þannig að það var mikið tjón þegar þetta fer og þar af leiðandi er mikil ánægja með að N1 skuli hafa ákveðið að byggja nýtt hús.“

Mynd: Kristinn Lárusson

Er hann ekki mikilvægur fyrir ferðaþjónustuna þarna?

„Að sjálfsögðu. Þarna er öll þjónusta sem að ferðamenn eru að fá, svo sem salernisaðstaða og svo sala á skyndifæði og smávörum. Þetta er mjög mikið atriði fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu.“

Elías segir að nýi skálinn verði í kringum 120 til 130 fermetrar.

Heimild: Visir.is