Home Fréttir Í fréttum Mikil ásókn í lóðir við Rósaselstorg

Mikil ásókn í lóðir við Rósaselstorg

241
0
Rósasel

Sveitarfélagið Garður hefur beðið mánuðum saman eftir því að nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar verði staðfest, en nýtt aðalskipulag flugvallarsvæðisins er forsenda þess að hægt verði að gera breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins á svæðinu við Rósaselstorg.

<>

Bæjarstjóri Garðs, Magnús Stefánsson, greinir frá því í pistli á heimasíðu sveitarfélagsins að margir aðilar hafi að undanförnu leitað eftir lóðum á því svæði í nágrenni flugstöðvarinnar fyrir atvinnustarfsemi, en til þess að sú uppbygging geti hafist þarf að gera ákveðnar breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Skipulagsstofnun tók sér tíma langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest til að staðfesta nýtt aðalskipulag Keflavíkurflugvallar, en vísaði því fyrir rest til umhverfisráðherra til afgreiðslu. Umhverfisráðherra hefur nú farið langt umfram lögbundinn afgreiðslufrest og hefur ekki ennþá afgreitt málið. Að öllu eðlilegu hefði Skipulagsstofnun átt að staðfesta skipulagið í maí 2016 og ef umhverfisráðherra virti skipulagsreglugerð hefði ráðherra átt að klára málið í mars 2017, segir bæjarstjórinn.

Þessar ótrúlegu tafir á afgreiðslu málsins koma sér mjög illa fyrir sveitarfélagið, flugvallaryfirvöld og fjölmarga aðra aðila sem hafa beðið eftir staðfestingu aðalskipulagsins í meira en eitt ár.

Þá segir bæjarstjórinn að vera dapurlegt að upplifa að stjórnvöld virði ekki þær reglur sem þau setja sjálf og að stjórnsýsla og málsmeðferð Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra sé í því skötulíki sem við blasir í þessu máli.

Heimild: Sudurnes.net