Silicor Materials hefur ákveðið að hægja á verkefnisþróunarvinnu vegna fyrirhugaðrar sólarkísilverksmiðju á Grundartanga. Vinna við verksmiðjuna gæti hafist á síðari hluta næsta árs.
Í tilkynningu frá Silicor Materials segir að ástæðurnar fyrir því að ákveðið hafi verið að hægja á þróunarvinnunni séu nokkrar.
Helsta ástæðan eru tafir á fjármögnun annars áfanga verkefnisins. Miklar kostnaðarhækkanir á Íslandi hafa einnig haft áhrif. Einvörðungu hluti þeirrar fjármögnunar sem búið var að tryggja, meðal annrs frá innlendum aðilum, hefur verið nýttur til þeirra vinnu sem þegar hefur verið unnin.
Í tilkynningunni segir að með því að hægja á undirbúningi verkefnisins sé markmið Silicor Materials að skapa svigrúm til þess að endurskipuleggja starfsemi fyrirtækisins og áætlanir um uppbyggingu sólarkísilvers.
Skoðað verður hvort möguleiki sé að reisa verksmiðjuna í áföngum.
Fréttablaðið greindi frá því fyrr á árinu að óánægju gætti meðal íslenskra einkafjárfesta, sem tóku þátt í hlutafjársöfnun Silicor Materials, með hversu hægt fjármögnun sólarkísilverksmiðjunnar á Grundartanga miðuðu.
Áform um verksmiðjuna voru kynnt opinberlega vorið 2014 þegar fulltrúar Silicor og Faxaflóahafna undirrituðu viljayfirlýsingu á Grundartanga um að fyrirtækið fengi lóð á Katanesi, austan álvers Norðuráls. Snemma á síðasta ári vonuðust ráðamenn þess til að framkvæmdir hæfust í síðasta haust.
Verksmiðju Silicor er ætlað að hreinvinna kísil til nota í sólarrafhlöður.
Heimild: Visir.is