Home Fréttir Í fréttum Vegagerðin kynnir fyrsta áfanga að endurnýjun vegar út á Látrabjarg

Vegagerðin kynnir fyrsta áfanga að endurnýjun vegar út á Látrabjarg

195
0
©Skutull.is

Vegagerðin fyrirhugar í sumar að endurgera fyrsta áfanga 8,4 kílómetra vegarkafla á Örlygshafnarvegi (612) við Patreksfjörð. Fyrirhugað er að endurbyggja, lagfæra og leggja bundið slitlag á núverandi veg frá enda bundins slitlags við Skápadalsá og út með firðinum, framhjá Hvalskeri og að afleggjara við Patreksfjarðarflugvöll í mynni Sauðlauksdals. Fjármagn er tekið af viðhaldfé tengivega á árinu 2015, en vonast er til að fjármagn fáist á næstu árum til að halda verkinu áfram, þegar ný samgönguáætlun verður samþykkt. Segja má að þetta sé fyrsti áfangi í lagningu nýs vegar út á Látrabjarg og því mikilvægt að fá frekara fjármagn til vegagerðarinnar.
Á vef Vegagerðarinnar er framkvæmdin kynnt. Vegurinn er 8,4 km langur og er áætluð efnisþörf í framkvæmdina um 80 þúsund rúmmetrar. Framkvæmdinni verður áfangaskipt og er stefnt að útboði fyrsta áfanga í vor. Kanna þarf matsskyldu framkvæmdarinnar samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, þar sem um er að ræða vegaframkvæmd utan þéttbýlis á verndarsvæði. Vegurinn liggur um svæði sem fellur undir hverfisvernd H1 í Aðalskipulagi Vesturbyggðar 2006-2018. Vegaframkvæmdin fellur að núverandi vegstæði og haft verður samráð við hagsmunaaðila sem framkvæmdina varðar. Vegagerðin telur að framkvæmdin hafi fremur lítil umhverfisáhrif nema hvað varðar betri samgöngur og bætt umferðaröryggi á veginum.

<>

Heimild: Skutull.is