Home Fréttir Í fréttum Þjónustumiðstöð á Hveravöllum á að fara í umhverfismat

Þjónustumiðstöð á Hveravöllum á að fara í umhverfismat

141
0
Mynd: AOK - Verkstæði arkitekta - Hveravallafélagið
Umhverfisstofnun telur að fyrirhuguð þjónustumiðstöð á Hveravöllum eigi að fara í umhverfismat hjá Skipulagsstofnun. Stofnunin bendir á í umsögn sinni að í stað hefðbundins skála standi nú til að reisa hótel fyrir 120 gesti og stórt bílastæði. Og minnir á að samkvæmt lögum verði hálendismiðstöð á Hveravöllum að falla að öllu leyti að kröfum um svokallaða óbyggðaupplifun.

Fréttastofa greindi frá því í byrjun mánaðarins að stefnt væri að uppbyggingu á Hveravöllum en þar hafa menn hug á að reisa 640 fermetra þjónustumiðstöð með veitingasal, gistirými og gestastofu.

<>

Umhverfisstofnun segir í umsögn að hún telji að framkvæmdirnar eigi að fara í umhverfismat. Slíkt væri kjörinn vettvangur til að meta hvers konar starfsemi og mannvirki falli að kröfum um óbyggðaupplifun á hálendinu.

Stofnunin telur að hótel muni breyta verulega ásýnd svæðisins og það geti mögulega leitt til aukins álags á viðkvæmt svæði og upplifun þeirra sem þarna fara um. Þá hefur stofnunin áhyggjur af því að aukin vatnstaka geti haft neikvæð áhrif á vatnsbúskap hverasvæðisins.

Umhverfisstofnun telur að meta þurfi hvort þessi fyrirhugaða uppbygging sé í samræmi við markmið stjórnvalda um uppbyggingu á hálendi Íslands – umfjöllun um möguleg áhrif á hverasvæðið sé ábótavant auk þess sem meta þurfi álag af völdum ferðamanna á hið viðkvæma svæði sem Hveravellir séu.

Fram kom í frétt RÚV í byrjun mánaðarins að ekki væri líklegt að fyrirhugað hús yrði tilbúið fyrr en eftir 2-3 ár. Þegar niðurstaða lægi fyrir um umhverfismat þyrfti Húnavatnshreppur að samþykkja deiliskipulag og að því loknu gætu framkvæmdir hafist. Og þar sem Hveravellir eru á hálendinu er tími til framkvæmda afar takmarkaður.

Heimild: Ruv.is