Home Fréttir Í fréttum Deila um málun gluggalista á borði kærunefndar

Deila um málun gluggalista á borði kærunefndar

295
0
Langvinn deila formanns húsfélags og fyrrverandi gjaldkera í fjölbýlishúsi náði hámarki þegar sá síðarnefndi neitaði að borga 139 þúsund krónur fyrir málningarvinnu utanhúss. Þessi átök um málningarvinnu voru eitt fjölmargra mála sem komu inn á borð kærunefndar húsamála á síðasta ári.

Nefndin birti fyrir helgi álit í nokkrum málum sem hún tók afstöðu til á síðasta ári en hlutverk hennar er meðal annars að fjalla um ágreining milli eiganda í fjöleignarhúsum.

<>

Á áliti nefndarinnar kemur meðal annars fram að gjaldkerinn fyrrverandi taldi að sér bæri ekki að greiða fyrir þessar framkvæmdir þar sem þær hefðu ekki verið samþykktar á aðalfundi húsfélagsins. Hann hafi beðið um tilboð og reikninga en ekki fengið nein svör og telji að lög um fjöleignarhús hafi verið brotin.

Formaður húsfélagsins segir í svari sínu til nefndarinnar að gjaldkerinn fyrrverandi hafi í starfi sínu lagst gegn því að haldnir yrðu húsfundir og aldrei lagt fram ársreikninga. Þá hafi hann geymt dót á sameiginlegum gangi og neitað að fjarlægja það.

Í bréfi formannsins kemur fram að í mars árið 2015 hafi svo verið kosin ný stjórn og nýr gjaldkeri.  Gjaldkerinn fyrrverandi hafi orðið mjög reiður með niðurstöðu þessara kosninga og áreitt hann með ýmsum hætti. Hann kveðst meðal annars hafa þurft að hafa samband við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu vegna þessarar háttsemi.

Um málun gluggalistanna segir formaðurinn að nauðsynlegt hafi verið að grípa til aðgerða. Engir húsfundir hafi verið haldnir um árabil frá því í september 2014 en á húsfundi þá hafi verið ákveðið að fá málara til að mála allt tréverk í húsinu, meðal annars gluggalista, þar sem það hafi verið að morkna niður.  Þá bendir formaðurinn á að allir íbúar hafi samþykkt að borga reikninginn nema gjaldkerinn fyrrverandi.

Kærunefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að þessar aðstæður hafi ekki verið með þeim hætti að þær mættu bíða ákvörðunar húsfundar um umfang framkvæmdarinnar. Gjaldkerinn fyrrverandi þurfi því ekki að borga reikninginn fyrir málun gluggalistanna.

Heimild: Ruv.is