Geymslusvæðið og Hlaðbær Colas hófu framkvæmdir við losun malbiksafganga án tilskilinna leyfa og stöðvaði Hafnarfjarðarbær þær eftir skoðun.
Lóðin sem um ræðir er að hluta grófjöfnuð og eru engar sérstakar mengunarráðstafanir til staðar á lóðinni. Síðasta ár hafa safnast upp um 20 þúsund tonn af malbiki til endurvinnslu og er engin útskolun olíuefna sjáanleg í jarðveginum í kringum malbikshauginn. Gert er ráð fyrir að efnið verði malað niður á þessu svæði í janúar til mars 2017.
„Við töldum okkur hafa leyfi,“ segir Ástvaldur Óskarsson, framkvæmdastjóri Geymslusvæðisins, spurður um hvers vegna var farið af stað.
„Málið er nú í umfjöllun hjá Hafnarfjarðarbæ. Það var gerð úttekt á þessu af verkfræðistofunni Eflu og nú er bærinn að vinna úr upplýsingunum og við bíðum á meðan,“ segir Ástvaldur.
Hlaðbær-Colas hefur leyfi til að taka á móti og endurvinna malbik og hefur gert það um árabil á sinni lóð.
Fyrirtækið hefur tekið við efni, verktökum að kostnaðarlausu með það í huga að endurvinna það í nýjar blöndur og spara þannig bik, steinefni og orku. En markaðir eru erfiðir þessa stundina og ekki hefur gengið sem skyldi að koma því á markað. Hefur efnið því safnast upp á lóð fyrirtækisins.
Hlaðbær-Colas fékk leyfi hjá Geymslusvæðinu til að geyma efnið á lóð fyrirtækisins þangað til markaðurinn glæðist. Lóð Geymslusvæðisins er skilgreind sem iðnaðarlóð í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar.
Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbæjar-Colas, segir málið lykta af pólitík. Hann bendir á að vegna plássleysis geti fyrirtækið ekki lengur tekið við efni.
„Það safnast meira upp en hefur náðst að nýta. Nú er loks verið að fara að skoða hvað er hægt að gera við allt þetta efni og vinnuhópur kominn á fót. Malbik er 100 prósent endurvinnanlegt og Ísland þarf að komast á þann stað sem aðrar þjóðir eru á gagnvart því að endurvinna malbik,“ segir Sigþór.
Hópurinn samanstendur af malbikunarfyrirtækjum, Vegagerðinni, sveitarfélögum, Umhverfisstofnun og Sorpu.
Heimild: Visir.is